150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gerðar hafa verið þó nokkuð margar sviðsmyndagreiningar og kostnaðargreiningar á þeim mismunandi leiðum sem í boði eru, hvernig það er og hver kostnaðurinn er við að byggja bara upp stofnvegakerfi, hver kostnaðurinn er við að gera það sama og gert hefur verið, hvaða áhrif það hefur á umferðarflæðið o.s.frv. Þegar það er allt borið saman er besta, ódýrasta og skilvirkasta leiðin blönduð leið stofnvegauppbyggingar og borgarlínu.

Og svo ég spyrji spurningarinnar aftur: Af hverju vill Miðflokkurinn fara í miklu dýrari framkvæmdir, sem ég giska á að séu bara stofnvegaframkvæmdir en ekki borgarlínuframkvæmdir? Og væri það ekki þegar allt kemur til alls með hærri viðhalds- og rekstrarkostnaði, sem ætti að dragast frá rekstrarkostnaði sem borgarlínan ber þó annars, þar sem hin blandaða leið er langbest þegar við berum saman afkastamöguleikana hjá þessum kostum? Ég veit ekki hvaða kostnaðargreiningar hv. þingmaður er að vísa í. (Forseti hringir.) Ég giska á að þær séu engar, hann sé einfaldlega að giska.