150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir spurningarnar. Ég sé fyrir mér þá dásamlegu framtíðarsýn að við getum stækkað stofnbrautirnar, breikkað þær, gert fleiri mislæg gatnamót og greitt úr umferð frá því sem nú er. Þá hugsa ég að strætisvagnarnir, sem nú eru stopp í umferðarhnútum, t.d. á Miklubraut, komist hraðar leiðar sinnar. Hvort þeir heita hraðvagnar eða eitthvað annað veit ég ekki, en ég hugsa að hvernig sem þeir eru komist þeir þá einfaldlega betur leiðar sinnar en nú er, (RBB: Það er bara …)ef við sinnum endurnýjun á vegakerfinu, sem ekki hefur verið gert árum, jafnvel áratugum saman. Hvað er langt síðan mislæg gatnamót hafa verið byggð hérna á Reykjavíkursvæðinu eða innan Reykjavíkur? Ég held að það sé töluvert langt síðan, nema ég gleymi einhverju. En það er mjög langt síðan. Ef úr þessu yrði bætt ímynda ég mér að strætisvagnarnir, núverandi vagnar eða einhverjir hraðvagnar í framtíðinni, færu greiðar um en nú er.