150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og verð að segja að ræðurnar eru bara betri ef minna er talað um borgarlínuna. En hv. þingmaður gerði mér samt þann greiða að koma aðeins inn á hana í ræðu sinni. Ég verð að viðurkenna að suðvesturkjördæmishjarta mitt særist svolítið í orðræðu hv. þingmanns og reyndar fleiri þingmanna Miðflokksins þegar kemur að umræðu um samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og borgarlínuna. Það er nefnilega þannig að í Suðvesturkjördæmi, sem samanstendur af sveitarfélögunum Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ — og reyndar líka Kjósinni, en að henni undanskilinni, Kjósin er ekki beint þátttakandi í þessu verkefni um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu — er samkomulagið samþykkt í öllum sveitarfélögum. Þar sitja bæjarstjórar sem tilheyra allir mínum flokki. Það hafa ekki verið miklar deilur um þessi mál í sveitarfélögunum en þau hafa verið mjög mikið rædd á vettvangi sveitarstjórnanna. Mér finnst því gert svolítið lítið úr kjörnum fulltrúum í þeim þegar alltaf er rætt um þetta mikilvæga verkefni sem einhvers konar hugarfóstur borgarstjóra eða meiri hlutans í borgarstjórn. Eins og allir aðrir séu einhvern veginn dregnir á asnaeyrum.

Mér finnst mjög mikilvægt að hv. þingmaður, af því að hann er nú formaður hv. umhverfis- og samgöngunefndar þingsins, kynni sér svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, hvað það stendur fyrir, hverjir komu að því og að þar var aðalhugmyndin hvernig við ætlum að byggja upp samgöngur til framtíðar á svæðinu. Borgarlínan er ein af mikilvægu lausnunum í því efni. Ég vil bara hvetja hv. þingmann til að kynna sér það og taka tillit (Forseti hringir.) til fólksins sem býr í þessum sveitarfélögum og kjörinna fulltrúa í þeim þegar kemur að umræðunni um borgarlínuna.