150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það mál sem hv. þingmaður kom inn á og er skiljanlega mikill hausverkur fyrir bæjarfulltrúa á Seltjarnarnesi ýti enn frekar undir mikilvægi þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinni saman að samgöngubótum. Það er einmitt það sem höfuðborgarsamkomulagið gengur út á. Það er heildstæð nálgun á samgöngur á svæðinu. Það er það sem ég held að sé svo gríðarlega mikilvægt. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um mikilvægi ljósastýringar. Ég get líka verið sammála um mikilvægi þeirra stofnvegabreytinga sem verið er að fara í með þessu samkomulagi en málið er að það eitt og sér leysir ekki samgönguvanda þeirra sem á svæðinu búa til lengri framtíðar. Það þarf heildstæðari lausn og borgarlína er hluti af þeirri lausn þannig að ég hvet hv. þingmann enn og aftur til að kynna sér betur samkomulagið og að hlusta á kjörna fulltrúa á svæðinu. Þessi vegferð er búin að vera löng og það hefur vissulega verið andstaða við hugmyndirnar. Ég get alveg viðurkennt að þegar ég gekk fyrst inn í verkefnið á sínum tíma þá var þetta ekki fyrsta lausnin sem mér datt í hug. En ég er að segja, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, að þeir sem hafa kynnt sér málið til hlítar hafa komist að því (Forseti hringir.) að blönduð leið er besta og hagkvæmasta leiðin fyrir okkur öll.