150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:55]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í kynningu Miðflokksins á minnihlutaáliti sínu fyrr í kvöld var talað um álögur á almenning. Það er ógnvekjandi að heyra það orð. Með því var verið að vísa til veggjalda. Nú getum við sagt sem svo að veggjöld séu tvenns konar: Það er grunngjaldið, sem núna er bensín- og olíugjald og verið er að vinna að finna lausn á því hvernig það verði innheimt, kannski sem kílómetragjald eða eitthvað slíkt. Svo eru það sérgjöld, sem eru þá gjöld í samvinnuverkefnisframkvæmdum eða jarðgöngum eða framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Var látið líta út sem þetta væri mjög óljóst allt saman.

Ég vil leggja áherslu á ábatann sem í þessu felst. Það er flýting framkvæmdanna, stytting vegalengda, aukið öryggi og tímasparnaður. Þetta eru kannski fáein hundruð króna, 500 kr., skulum við segja, á einhverjum stað, sem er andvirði 5 km aksturs á meðalbíl. Þetta kalla menn álögur og tala inn í ákveðinn hóp sem lítur svo á að nánast sé verið að níðast á þeim sem nýta vegi og götur landsins. Við fengum til okkar gesti og þar voru m.a. gestir á sveitarstjórnarstigi sem nefndu t.d. að í samvinnuverkefninu um nýja brú yfir Ölfusá værum við kannski að horfa á 200–300 kr. gjald fyrir allt það sem ég var að telja upp. Ég spyr: Í hverju felast þessar neikvæðu álögur sem Miðflokkurinn segir veggjöld vera? Þessi orðræða slær að mínu mati ryki í augu fólks frekar en að vera upplýsandi og útskýra fyrir fólki hver raunveruleikinn er á bak við veggjöld. Ég vil gjarnan heyra hv. þm. Bergþór Ólason koma með einhver andsvör við þessu.