150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir andsvarið. Fyrst er það að segja að álögur eru í eðli sínu heldur neikvæðar. Það er skattheimta þar sem sjálfsaflafé einstaklinga eða rekstrarfé fyrirtækja er tekið til hverra þeirra nota sem nauðsynlegar eru, en það er nauðsynlegt til þess að reka það kerfi sem við höfum komið okkur upp. Við í Miðflokknum höfum lagt mikla áherslu á að við höfum í rauninni ekki hafnað veggjöldum. Það er ekki það sem kemur fram í áliti okkar. Af því að ég hef dálítinn tíma þá leyfi ég mér að lesa það sem kemur beinlínis fram í ályktun okkar, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti áréttar að mikil framkvæmdaþörf er um allt land og að með núverandi framlögum til nýframkvæmda og viðhalds vinnast verkin hægt. Annar minni hluti mun í umræðu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun og eftir atvikum um fjárlög á komandi haustþingi leggja til að heimilað verði að hefjast handa við umfangsmikið fjárfestingarátak í samgöngumálum á grundvelli skuldsettrar fjármögnunar.“

Þarna eru ýmsar leiðir færar til fjármögnunar. Ein af þeim gæti alveg verið hóflegt veggjald þar sem það á við. En við höfum jafnframt haldið því til haga að það megi ekki vera hrein viðbót við aðra gjaldtöku á umferð, sem er mjög mikil í dag. Ég held að það velkist enginn í vafa um að kostnaðurinn við að aka á Íslandi, bæði vegna gjaldtöku á ökutæki og síðan olíugjöldin, bensíngjöldin og önnur þau gjöld sem lögð eru á bifreiðaeigendur, er mikill. Án þess að ég hafi rannsókn til að styðjast við í þeim efnum leyfi ég mér að fullyrða að það er ekki víða þar sem kostnaður við hvern ekinn kílómetra fyrir einstakling sem ekur um á eigin bíl er miklu hærri en hér á Íslandi þegar allt er talið.