150. löggjafarþing — 117. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:00]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Eru álögur í sjálfu sér neikvæðar? Já, mikil ósköp, en ef þær eru ábati eru þær þá eftir sem áður álögur? Um það snerist mál mitt og ég var að reyna að sýna fram á það.

En að öðru. Það snertir svo sem fjármögnun, en mér finnst myndin sem þingmenn Miðflokksins draga upp af fjármögnun í samgöngumálum ekki sannferðug. Þeir tala um að það gangi allt of hægt o.s.frv., en ef við leggjum saman tölurnar og skoðum nefndarálitið þá er fjármögnunin mjög myndarleg og skýr, að slepptu fjármálaátakinu 2023, sem á eftir að skýra aðeins betur í haust. Þetta eru flýtingar með þessum framlögum og með samvinnuverkefnum og höfuðborgarsáttmálanum. Og nú þegar skuldsetning ríkisins stefnir í, við skulum segja, 500 milljarða vegna Covid, eigum við þá að bæta við 150 milljörðum með lánum að auki? (Gripið fram í: Skuldsett …)