150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég kem ánægður hingað upp til að þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra skjót viðbrögð þegar hann hækkaði bílastyrki til fatlaðra um 20% og reddaði þar með þeim bílum sem höfðu hækkað um milljón í hafi vegna gengisfalls. En á sama tíma vil ég senda út þau skilaboð að ömurlegt er til þess að hugsa að meiri hlutinn í Reykjavíkurborg skuli ganga það langt að ætla að stoppa ferðir þessara sömu einstaklinga og annarra fatlaðra um göngugötur Reykjavíkurborgar. Skýringin á þeim ósköpum er sú að engin bílastæði séu fyrir fatlaða í göngugötunum. En hver tók burtu bílastæði fatlaðra, þau sem voru í göngugötunum? Það er sama borg, Reykjavíkurborg. Og önnur skýring er sú að ekki sé hægt að hafa göngugötur opnaðar fyrir fatlaða af því að ef fatlaðir einstaklingar á bíl keyra um göturnar eins og má, brýtur sá sem kemur næstur á eftir lög. Og þá er það hinum fatlaða að kenna.

Hvers lags skilaboð eru þetta? Hvers lags fordómar eru í gangi?

Þetta endurspeglast líka í nýrri frétt þar sem verið er að opna hús á Borgarfirði eystra. Þar segir orðrétt í fréttinni, með leyfi forseta:

„Vantar lyftu sem kostar 7 milljónir.

Húsið er enn þá lyftulaust og því illaðgengilegt hreyfihömluðum með bröttum stiga. Húsið var dýrara en búist var við og til að spara var því frestað að kaupa 7 milljóna kr. lyftu en lyftustokkurinn er klár. Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, hafa gert athugasemd við þessa ráðstöfun.“

Það var of dýrt að setja lyftuna inn. En hvað kostaði lyftan? Jú, 7 milljónir. Hvað var hún af heildarkostnaðinum? 3,5%. Myndi þetta hús verða opnað ef það vantaði stiga? Myndi byggingarfulltrúi opna slíkt hús? Eða ef vantaði glugga eða hurðir eða ef það væri bara óeinangrað? Nei, aldrei.