150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:09]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér höldum við áfram umræðu um samgönguáætlun við síðari umr. en áætlanirnar voru afgreiddar úr umhverfis- og samgöngunefnd í síðustu viku. Nefndin fékk þessar áætlanir til umfjöllunar í byrjun desember og síðan þá hefur farið fram mikil vinna í nefndinni, vinna sem ég er virkilega ánægð með og stolt af og vil þakka samstarfið um það verkefni.

Samgönguáætlun var síðast afgreidd hér fyrir rúmu ári en nú erum við að afgreiða uppfærða áætlun þar sem úr meira fjármagni er að spila og ýmis verkefni eru nánar útfærð en fyrir ári. Áætlanirnar eru lagðar fyrir þingið samþættar ýmissi annarri stefnumörkun stjórnvalda, svo sem byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun, og fjallað er um fjáröflun til samgöngumála en eins og kom fram í gær þá taka áætlanirnar auðvitað mið af ýmsu öðru eins og stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti og ýmsu fleiru sem varðar þessi mál.

En eins og ég hef áður sagt í þessum ræðustól hafa samgöngur áhrif á alla. Þær eru stærsta byggðamálið og jafnframt heilbrigðis- og lýðheilsumál. Þær eru menntamál og velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál og menningarmál og ég kem helst ekki hér í umræðu um samgöngumál án þess að nefna það og finnst skipta miklu máli að við horfum þannig á málaflokkinn allan. Skipulag og uppbygging samgangna ræður miklu um alla samfélagsþróunina, bæði til lengri og skemmri tíma, og við þurfum því að vanda okkur í allri áætlanagerð á því sviði, ekki síður en annars staðar.

Þetta kjörtímabil markar á margan hátt tímamót í samgönguframkvæmdum þar sem þeim er komið aftur á skrið eftir nær áratugshægagang. Áætlunin núna ber þess glöggt merki að við erum að greiða niður innviðaskuldina í samgöngum eftir hrunið þar sem stórauknu fjármagni er nú varið til vegagerðar miðað við fyrri tímabil. Vissulega erum við ekki að verða uppiskroppa með samgönguverkefni. Við verðum það mjög seint í jafn dreifbýlu landi og Ísland er. En hér eru stigin markviss og mikilvæg skref. Það er mikil gerjun í ýmiss konar verkefnum tengdum samgöngum og margir boltar á lofti, m.a. vinna við rannsóknir, hönnun, umhverfismat, orkuskipti, samningagerð milli ríkis og sveitarfélaga, ríkis og landeigenda, ríkis og opinberra hlutafélaga og vinna stendur yfir við að útfæra fjölbreyttari leiðir við fjármögnun verkefna og unnið er að heildarendurskoðun á framtíðarfjármögnun vegakerfisins en það kom líka allt fram við umræðuna í gær.

Samhliða afgreiðslu áætlunarinnar hljóta fleiri mikilvæg verkefni tengd áætluninni staðfestingu Alþingis, t.d. ný flugstefna, ný stefna í almenningssamgöngum, samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið og verkefni sem áætlað er að verði samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum. Eins og kunnugt er fjallar Alþingi samhliða um frumvörp tengd samgöngusáttmálanum og samvinnuverkefnunum. Með afgreiðslu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar á áætluninni og nefndaráliti er lagt til við þingið að áætlunin eins og hún var lögð fyrir, í raun öll verkefni áætlunarinnar, hljóti samþykki ásamt þeim flýtiverkefnum sem Alþingi samþykkti í fjárfestingarátaki 2020, sem er mótvægisaðgerð vegna Covid og þau verkefni voru samþykkt með sérstakri þingsályktun nr. 28/150. Meðal áherslna í fjárfestingarátakinu voru samgönguverkefni að upphæð 6,5 milljarðar kr. til viðbótar við það sem gert var ráð fyrir í tillögu að samgönguáætlun eins og hún var lögð fyrir þingið. Þetta fjármagn nýtist til að flýta upphafi ýmissa verkefna um land allt og leggur meiri hlutinn mikla áherslu á að öllum þessum flýtiverkefnum sem þingið er búið að samþykkja verði fylgt eftir með fjárveitingum í fjármálaáætlun sem lögð verður fram í haust þannig að þeim ljúki á árunum 2021–2023. Segja má að það sé meginniðurstaðan úr umfjöllun nefndarinnar. Meðal verkefnanna eru flugstöð og flughlað á Akureyri, úrbætur í formi akbrautar í samspili við flughlöð á Egilsstaðaflugvelli, hafnarframkvæmdir, m.a. á Bíldudal og Djúpavogi, breikkun brúa víða um land, hringtorg, vegaframkvæmdir og hönnun, verkefni sem tengjast óveðrinu, framkvæmdir við tengivegi sérstaklega og viðhald flugvalla, m.a. á Ísafjarðarflugvelli og Þórshafnarflugvelli. Síðan var fjármagni ráðstafað sérstaklega í viðhald á öðrum lendingarstöðum innan lands. Kveðið er skýrt á um það í nefndaráliti og breytingartillögum meiri hlutans að það fari m.a. til flugvallanna á Norðfirði, Húsavík og Blönduósi, en auk þess dreifist það á aðra velli. Og til að hnykkja enn á þessari meginniðurstöðu þá þýðir það að eftir að fjármálaáætlun verður lögð fyrir þingið í haust mun umhverfis- og samgöngunefnd leggja fram þingsályktunartillögu sem byggist á vinnu nefndarinnar í vetur, þeim tillögum sem verða í fjármálaáætlun um fjárframlög til samgangna og þeim áherslum sem nefndin setur fram í töflum aftast í nefndarálitinu. Að mínu áliti er í raun, með þeirri ákvörðun að hefja á þessu ári þau verkefni sem þar eru listuð upp, komin ákveðin skuldbinding um að ljúka þessum verkefnum á skynsamlegum framkvæmdatíma.

Svo dálítil yfirferð af handahófi yfir ýmis mikilvæg verkefni áætlunarinnar en þar eru margar stórar og mikilvægar framkvæmdir sem líklegar eru til að skapa ný tækifæri í íslensku samfélagi og stuðla að allra handa nýsköpun. Eitt af þessum samfélagslega mikilvægu málum er auðvitað samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins. Stóru tímamótin með sáttmálanum eru að með honum sameinast ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um samgönguskipulag fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins og fjármögnun uppbyggingar mannvirkja og almenningssamgöngur í 15 ár. Samvinna sveitarfélaganna, um skipulag umferðar um svæðið í heild, er risastórt skref. Aðkoma ríkisins tryggir samspil við umferð að og frá höfuðborginni í flugi, um hafnir og stofnbrautir, m.a. með tengingu við skipulag Sundabrautar, en gert er ráð fyrir að tillögur um legu brautarinnar liggi fyrir í lok sumars.

Í samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum við innviði allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrautir, sérakreinar fyrir forgangsumferð, göngu- og hjólastíga, auk þess sem átak verði gert í umferðarstýringu. Greiningarvinna vegna útboðs á ljósastýringu er hafin en betri umferðarstýring getur haft veruleg áhrif á umferðarflæði með hlutfallslega litlum tilkostnaði. Tilgangur samgöngusáttmálans er m.a. að flýta framkvæmdum en uppfærð framkvæmdaáætlun sáttmálans verður áfram hluti af samgönguáætlun. Þannig verður Alþingi áfram gert kleift að halda heildarsýn yfir samgönguframkvæmdir í landinu. Samgöngusáttmálinn er að mínu áliti mjög mikilvægur liður í að skapa þessa heildarsýn fyrir fjárfestingu og framþróun samgöngukerfis landsins í heild og liður í að tryggja sátt um samgönguframkvæmdir um land allt á næstu 15 árum. Virðing allra samningsaðila fyrir samkomulagi og heilindi í vinnu að framgangi þess eru svo lykill að því að áætlanir gangi eftir og nýtist öllum íbúum landsins.

Svo langaði mig að koma inn á framkvæmdir á mismunandi vegflokkum. Reyndar var komið inn á töluvert af þessu í umræðunni í gær en ég ætla að stoppa við eitthvað af því. Nefndin leggur sérstaka áherslu á að stofnvegir sem enn hafa ekki fengið bundið slitlag njóti sérstaks forgangs í framkvæmdum. Þessir vegir eru reyndar flestir á áætlun en mögulegt að flýta og hraða því að framkvæmdum við þá ljúki alveg. Þarna eru t.d. vegir eins og Skógarstrandarvegur, vegur til Borgarfjarðar eystri og Bárðardalsvegur svo að eitthvað sé nefnt en einnig Þverárdalsvegur og Bíldudalsvegur og vegurinn milli Sandgerðis og Garðs. Í sum þessi verkefni þarf sérstakar fjárveitingar en önnur er hægt að vinna sem hluta af öryggis- og viðhaldsverkefnum þar sem eru pottar til ráðstöfunar á hverju ári.

Tengivegir eru líka mjög mikilvæg verkefni og sérstök fjárveiting er ætluð til styrkingar og lagningar bundins slitlags á umferðarlitla tengivegi til að auka öryggi á vegum. Atvinnuhættir, breytt skipulag grunn- og leikskólaþjónustu og vaxandi umferð ferðamanna að náttúruperlum við slíka vegi hafa gjörbreytt umferðarþunga og álagi á þessa vegi og þar er veruleg þörf fyrir úrbætur. Verið er að auka fjármagnið til framkvæmda á þeim vegum og nefndin leggur áherslu á að fjárveitingin dreifist um landið í hlutfalli við tengivegi sem enn eru með malarslitlagi í hverjum landshluta en leggur áherslu á að áfram fylgi fjármagn til framkvæmda á tengivegum á næstu árum.

Héraðs- og styrkvegir eru kannski þeir vegir sem fá almennt minnsta athygli í samgönguáætlun en leið flestra íbúa dreifbýlisins sem fara um tengivegi endar á héraðs- eða styrkvegum. Þeir eru þess vegna stór hluti af þeim malarvegum sem íbúar strjálbýlisins eiga leið um daglega. Ástand vegakerfisins í dreifðum byggðum hefur oft úrslitaáhrif á samkeppnishæfni og nýsköpun í atvinnu landsvæða. Þannig höfum við dæmi um að þröngar og veigalitlar brýr hindri umferð fólksflutningabíla og flutninga á landbúnaðarafurðum og dragi úr möguleikum á að þróa atvinnustarfsemi og jafnvel að halda áfram þeirri starfsemi sem er þegar til staðar. Þess vegna leggur nefndin til að farið verði í ákveðna vinnu til að greina reglurnar sem gilda um þessa vegi og hvernig megi tryggja jafnræði þeirra sem eru með atvinnurekstur í dreifbýli í samgöngum á við aðra, hvort sem þeir búa við héraðsvegi, tengivegi eða stofnvegi.

Landsvegir utan stofnvegakerfisins eru einn flokkur vega. Það eru vegir yfir fjöll og heiðar og um aflagðar eyðibyggðir. Notkun á þeim hefur aukist mikið á síðustu árum en fjármagn til að sinna þeim er fyrst og fremst af viðhaldsfé Vegagerðarinnar. Meiri hlutinn leggur til að Vegagerðinni verði falið að leiða vinnu við að greina fjármagnsþörf og skynsamlegt fyrirkomulag vegbóta á landsvegum utan stofnvegakerfisins og þannig mætti kannski ganga markvissar í að bæta þær leiðir sem samstaða er um að viðhalda í góðu ástandi.

Nú er gert ráð fyrir, í þessari samgönguáætlun, að gerð verði heildstæð greining á jarðgangakostum á Íslandi og þeim verði forgangsraðað til lengri tíma. Undir þetta tekur meiri hluti nefndarinnar og leggur áherslu á að sköpuð verði tækifæri til að vinna að fleiri en einu jarðgangaverkefni samtímis og til þess að það verði mögulegt þarf að vinna jarðfræðirannsóknir, samfélagsgreiningar og ábatagreiningar þannig að forgangsröðun sé á traustum stoðum. Eina verkefnið á áætluninni núna er jarðgöng á Austurlandi. Nefndin leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skili ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þurfi göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinnan við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng væri að fullu lokið en nefndin leggur áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.

Nýja flugstefnan og fjárfestingarátakið 2020 markar ákveðin þáttaskil í flugi en nú er hafin uppbygging á Akureyrarflugvelli. Flugstöðin verður stækkuð ásamt flughlaði og viðbygging við flugstöðina hefur þegar verið boðin út. Ég vil sérstaklega fagna því hversu hratt mál hafa þróast þar síðustu mánuði eða frá því að aðgerðahópur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hóf störf í desember til að meta þörf fyrir aðstoð og þjónustu í flugstöðinni á Akureyrarflugvelli í samvinnu við heimamenn. Um áramótin urðu svo tímamót í rekstri og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli þegar Isavia tók við rekstri flugvallarins með sérstökum samningi grundvölluðum á varaflugvallarhlutverki hans í flugstefnunni. Eins og áður er komið fram hefst undirbúningur að gerð akstursbrautar við hlið flugbrautarinnar á Egilsstöðum í samspili við flughlað í ár og í nefndaráliti meiri hlutans segir að samhliða hefjist undirbúningur á lagningu nýs malbiksyfirlags á flugbrautina en það yrði fjármagnað með rekstrarsamningnum við Isavia.

Svo er auðvitað rétt að minna á að í samgönguáætluninni renna árlega 2,5 milljarðar til þjónustu við innanlandsvellina í gegnum þjónustusamninginn við Isavia sem Isavia sér þá um að stýra. Við það að rekstur Egilsstaðaflugvallar flyst til Isavia skapast aukið svigrúm fyrir þjónustu við þá velli en líka til að efla innanlandsflugið sem almenningssamgöngur. Nefndin fagnar þessu og áætlunum um að skoska leiðin verði tekin upp snemma hausts 2020. Þá er tekið, held ég, virkilega afgerandi af skarið, bæði í tillögu og nefndaráliti um að farið verði í markvissari vinnu við að koma á flugleiðsögukerfinu EGNOS þannig að það þjónusti allt landið og umhverfi þess. Leiðsögukerfið þjónar m.a. fluginu en getur líka þjónað ýmsum öðrum samgöngum.

Þá fer að líða að lokum. Kannski er rétt að nefna aðeins að auðvitað eru umhverfismálin og orkuskiptin afskaplega mikilvæg. Mig langar líka að nefna mál sem komið er inn á í nefndarálitinu, atriði eins og fylgdarakstur og sköpun skjóls og ræktun skjólbelta við vegi og betri skráningu slysa. En að lokum langar mig að benda á að á bls. 15–16 í nefndarálitinu er listi yfir verkefni sem meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að hefja vinnu við fyrr en nú er áætlað þegar fyrir liggur hvaða svigrúm myndast á árunum 2025–2034 í kjölfar þeirra verkefna sem hefjast í ár og gert er ráð fyrir að ljúki á fyrsta tímabili vegna sérstaks fjárfestingarátaks. Á þeim lista eru m.a. verkefni eins og Reykjanesbrautin næst flugstöðinni, brýr yfir Jökulsá á Fjöllum, Skjálfandafljót og Lagarfljót og þjóðvegur 1 milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvíkur. En þarna eru býsna mörg verkefni.

Að lokum má segja að telja megi öll samgönguverkefni sem hægt er að fara í við núverandi aðstæður í samfélaginu og við þann efnahagssamdrátt sem fylgt hefur Covid mótvægisaðgerðir vegna Covid og mikilvægt að nýta alla möguleika til að flýta framkvæmdum sem geta stutt við atvinnuuppbyggingu og aukið hagvöxt, samkeppni og öryggi vegfarenda.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að sjá verkefnin í áætluninni raungerast eitt af öðru. Hugsið ykkur, eftir 15 ár stefnir í að einbreiðum brúm á hringveginum hafi fækkað um meira en 30 fyrir utan það sem einbreiðum brúm fækkar um á öðrum leiðum. Samgönguverkefnin eru fjölbreytt. Það þarf að vinna markvisst, rannsaka skipulega, meta og stíga þannig eitt skref í einu til að komast örugglega áfram veginn.