150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Sú staðreynd að samgöngur eru lífæð þjóða á ekki síst við í okkar fámenna og strjálbýla landi. Þrátt fyrir það liggur fyrir að yfirvöld hafa um árabil vanrækt það hlutverk sitt, af einni eða annarri ástæðu, að sinna almennilegri uppbyggingu og viðhaldi á vegum landsins. Þegar við bætast nýjar áskoranir vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna síðustu árin er ljóst að aðgerða er þörf. Allt í allt er talið að uppsöfnuð þörf í samgönguinnviðum okkar sé um 400 milljarðar kr. Sú staðreynd endurspeglast í þeirri vinnu sem liggur að baki þeirri samgönguáætlun sem er til afgreiðslu hér, rúmu ári eftir að Alþingi samþykkti síðast samgönguáætlun.

Mig langar samhengisins vegna að rifja upp sögu samgönguáætlunar síðustu ár. Haustið 2016, ég ætla ekki að fara lengra aftur, fyrir þingslit vegna óvæntra kosninga þá um haustið, var samþykkt samgönguáætlun sem fékk þá einkunn ansi fljótlega, jafnvel í umræðunni sjálfri, að vera kosningaplagg án innstæðu. Tveimur árum síðar, haustið 2018, var því lögð fram ný samgönguáætlun sem ætlað var að vera raunsærri. Af henni hlaust mikil og á köflum hörð umræða, ekki síst vegna hræringa og ágreinings innan stjórnarflokkanna sem gerði að verkum að áætlunin sjálf og forsendur hennar tóku sífelldum breytingum á meðan umhverfis- og samgöngunefnd var vinna málið. Á endanum, í febrúar 2019, var samgönguáætlun til áranna 2019–2023 og 2019–2033 afgreidd frá Alþingi en með því fororði að það hið sama haust ætti að leggja fram nýja áætlun. Þá ætti að liggja fyrir mál samgönguráðherra um nýja fjármögnun í samgöngumálum sem og samkomulag við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um samgöngumál á því svæði, að ógleymdri langþráðri stefnu í flugmálum. Þetta var smá saga.

Þessi mál hafa frá haustinu 2019 verið að skríða saman og nú erum við að afgreiða, ef að líkum lætur, samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 og fyrir 2020–2034 í samhengi við sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, sem var undirritaður sl. haust af samgönguráðherra og forsvarsfólki sex sveitarfélaga á svæðinu, í samhengi við heimild til að stofna opinber hlutafélög um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, sem er á dagskrá hér síðar í dag eða kvöld, og í samhengi við frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, sem var tekið út úr umhverfis- og samgöngunefnd í morgun.

Ég er á áliti meiri hlutans í þessu máli. Fyrst og fremst auðvitað af þeirri ástæðu að ég tel vinnu nefndarinnar vera vandaða, þar hafi verið tekið tillit til fjölmargra álitamála og það er næstum því aðdáunarvert að mínu mati hvernig nefndin hefur náð saman um þau mál, sem ég hef þulið hér upp, og tekist að færa málið upp úr þeim átakafarvegi sem það var í, ýta því áfram og hnýta þetta allt saman. Það var fyrirsjáanlegt að þetta yrði flókið mál. Covid-faraldurinn einfaldaði það sannarlega ekki. Framsögumaður málsins, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, fór yfir það í gær sem og annar þingmaður meiri hlutans, Líneik Anna Sævarsdóttir, í dag hvaða afleiðingar það hefur síðan á endanlega afgreiðslu málsins og ég kem kannski eilítið að því á eftir. En ég er þá búin að rekja það að ég er á þessu máli vegna þess að ég tel vinnu nefndarinnar góða. Ég er líka á þessu máli vegna þess að eitt af því sem á strandaði fyrir ári síðan, og mögulega fyrr, var að samgönguyfirvöld voru að fara með stefnu sína í samgöngumálum í allt aðra átt en yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélögin sex, og það er náttúrlega óásættanlegt. En það er ekki fyrir hendi lengur, menn hafa náð saman. Síðast en ekki síst er ég á þessu máli vegna þess að ég tel það mikilvægt hagsmunamál fyrir alla landsmenn að ákveðin sátt skapist um þessi mál og að við förum að færa málin áfram og láta verkin tala.

Ég er með ákveðna fyrirvara. Í stað þess að flytja enn eina ræðuna um sjálft meirihlutaálitið sem ég er á, sem er búið að fara yfir og ég geri ekki lítið úr því, það er full ástæða fyrir fólk að gera það, ætla ég að fara, vonandi í ekki í mjög löngu máli, yfir þá fyrirvara sem ég set við málið. Fyrsti fyrirvarinn er jákvæður. Mér finnst ástæða til að fagna því og ég árétta það að samgöngusáttmálinn sem var undirritaður af hálfu ríkisins og sex sveitarfélaga sl. haust er nú orðinn hluti af stefnumótandi langtímaáætlun í samgöngumálum, en ekki bara einhver neðanmálsgrein. Sérstaklega eru að mínu mati jákvæðar áherslur á borgarlínuna. Það er samvinnuverkefni, þvert á það sem gjarnan er haldið fram í umræðunni hjá sumum. Þetta er samvinnuverkefni allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, stórs hluta þjóðarinnar. Þessir aðilar hafa þvert á flokkslínur sammælst um þessa nálgun. Framkvæmdin er ekki bara nauðsynleg til að samgöngukerfi þessa þéttbýla svæðis ráði í náinni framtíð við vænta fjölgun einkabíla í umferðinni heldur er aukin áhersla á almenningssamgöngur forsenda þess að við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum. Þess utan kemur framkvæmdin til móts við væntingar og óskir fjölda íbúa á þessu svæði sem vill þennan samgöngumáta, sem vill geta valið um að ferðast um á þennan hátt. Það er óþarfi að tilgreina enn og aftur allar þær áætlanir sem sýna að þessi framkvæmd, borgarlínan, mun þar með gera að verkum að þeir sem vilja eða þurfa að ferðast áfram um á einkabíl sínum geta það, nokkuð sem þeir myndu illa geta án framkvæmdarinnar.

Ef vel ætti að vera myndu almenningssamgöngur á landsvísu skipa heiðurssæti í samgönguáætlun stjórnvalda, hvort sem er til fimm eða 15 ára. Ég spái því reyndar að sú verði raunin í náinni framtíð. Ástæðan er augljós eins og ég segi, það eru atriði á borð við áhrif á búsetuval, val um samgöngumáta, umferðarþungi og umferðaröryggi spila þar inn í og síðast en ekki síst markmið okkar í loftslagsmálum. Þær áskoranir eru áfram eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið sem ríkisstjórnir okkar tíma standa frammi fyrir og munu gera, mér liggur við að segja um ókomna tíð.

Það er í þeim anda, í anda loftslagsmálanna, sem annar fyrirvari kemur frá mér. Mér hefði þótt gott að sjá meiri áherslu á uppbyggingu innviða í rafvæðingu samgöngumáta. Það dylst fáum að það er þörf á stórátaki þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum og það hefði mátt mæta því með metnaðarfyllri nálgun. Ég átta mig á því að það er umdeilanlegt hvar þessi nálgun á að finna sér stað, hvort það er í samgönguáætlun eða einhvers staðar annars staðar, en það hefði mátt nefna það með skýrari hætti, gera þeim áherslum hærra undir höfði í samgönguáætlun. Tæpur helmingur nýskráðra bíla t.d. í dag eru raf- eða tvinnbílar. Nú eru að berast fréttir af því, viðvaranirnar til ferðafólks sem ætlar að leggja land undir fót eða dekk á vegi í sumarfríinu, að búast megi við töfum á öllum helstu hleðslustöðvum. Þetta er ekki gott og því hefði þurft að vera hægt að bregðast við. Það hefðu menn vissulega ekki gert með því að taka á því í nefndaráliti hér en ég nefni þetta til vitnis um það hvað þetta er mikilvægt mál sem þarf að vera samtvinnað í allar aðgerðir okkar. Vissulega á þetta ekki bara við um bílana, þetta á líka á við í lofti og á sjó. Þó að flotinn okkar, fiskiskipaflotinn sé vel á vegi staddur, þá bíður okkar rafvæðing hafnanna og síðan heyrum við þessar fréttir um rafvæðingu flugsins. Ég held að það eigi eftir að verða næsti stóri hlutinn sem við munum fjalla um í umhverfis- og samgöngumálum á næstunni og vonandi verður það strax í haust.

Við í Viðreisn getum að miklu leyti tekið undir þá framtíðarsýn sem lýst er í nefndarálitinu um að bein framlög úr samgönguáætlun og jarðgangaáætlun eigi að standa undir hluta framkvæmdakostnaðar og gjaldtaka af umferð geti fjármagnað það sem út af stendur. Sú framtíðarsýn er þó að miklu leyti ómótuð og hér gildir það sama og þegar kemur að samvinnuverkefnunum, það er mikilvægt að fá sem fyrst skýr svör við tilteknum atriðum sem varða t.d. áhrif framkvæmdanna á ríkissjóð, hvenær framlag ríkisins telst til ríkisskulda, fá skýra sýn á kostnað almennings í sinni víðustu mynd og svo útfærslu gjaldtökunnar. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að það ríki fullkomið gegnsæi varðandi þær reglur sem verða mótaðar og unnið eftir í hverju verkefni fyrir sig og að jafnræðis verði gætt eftir fremsta megni. Þetta er vinna sem við erum, þrátt fyrir alla þá vinnu sem hefur verið lögð í hlutina og þrátt fyrir það hversu langt við höfum komist í að púsla þessu saman, að ýta svolítið á undan okkur. Við erum að ræða tvö önnur mál þessu tengd, ekki síst hið svokallaða PPP-mál sem kemur til kasta lokaumræðu í þingi á næstu dögum, og ég geri ráð fyrir því að þar verði þessi mál rædd ítarlegar.

Það er fjallað um í nefndarálitinu hversu mikil áhrif hröð tækniþróun í myndgreiningu geti haft í þá átt að stórauka möguleikana á því að mæla og greina umferð og hversu góð áhrif það geti síðan haft á uppbyggingu og þróun. Með því að tengja myndgreiningu við ökutækjaskrá er augljóslega hægt að fá mjög ítarlegar upplýsingar um dreifingu á umferð, ítarlegri en áður hefur þekkst. Það er hægt að sjá hvaðan hún kemur, hvert hún er að fara, hvenær, hvernig bílar eru að keyra og hvert o.s.frv. Þetta hljómar mjög vel þegar við lítum til uppbyggingar samgöngumannvirkja. En við megum ekki gleyma því að á bak við umferðina er fólk, það eru einstaklingar, og það sem við erum raunverulega að segja er að við getum fylgst með því hvert hver einstaklingur, í gegnum skráningu á bíl, er að fara, hvaðan hann er að koma, hvenær sólarhringsins, hversu oft og á hvernig bíl. Þá hljómar þetta allt í einu pínulítið varhugaverðra en bara það að við séum að skoða umferðina. Það er bara þannig. Þó að það sé einsýnt að þessar upplýsingar geti gefið mikilvæga og gagnlega innsýn í samsetningu og flæði umferðar þá verðum við að muna og hafa í huga hér í þessum sal að söfnun slíkra upplýsinga er líka mjög mikið inngrip í persónufrelsi vegfarenda, sérstaklega ef staðan er sú að þeir vita ekki af því að við erum að safna þessum upplýsingum. Þar liggur fyrirvari minn. Það þarf að vanda mjög til verka og við verðum á Alþingi að eiga gott og mikið samstarf við Persónuvernd til að tryggja að ýtrustu skilyrði persónuverndarlaga séu virt. Nauðsynlegt er að það eigi sér stað víðtæk kynning á meðal almennings á umfangi þessara mælinga og jafnframt að skýrt sé hvernig aðgengi að þessum upplýsingum er háttað. Það er mjög mikilvægt að þetta sé ekki einhver eftirmáli sem við kveikjum á þegar málið er að verða þroskað, köllum fulltrúa Persónuverndar á einn fund, hlustum á þau skamma okkur og lofum bót og betrun. Þetta mál er of stórt fyrir þannig vinnubrögð, sem við höfum svolítið tamið okkur þegar kemur að persónuverndarmálum.

Síðan langar mig að nefna, bara til að árétta, að í áliti meiri hlutans kemur fram að nefndin telur brýnt að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í samræmi við samkomulag samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóra um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni frá nóvember 2019. Þessi langa setning er ekki frá mér komin, hún er í álitinu. Þetta er alveg hárrétt og mikilvægt að virða af því að það er mikilvægt að virða samkomulag. En mér finnst rétt að nota tækifærið til að minna jafnframt á að grundvöllur þessa samkomulags, það sem aðilarnir voru raunverulega sammála um, er að núverandi flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli skuli flutt yfir á nýjan flugvöll í Hvassahrauni, reynist það vænlegur kostur. Það sem mér finnst ekki síður mikilvægt er að þetta tiltekna samkomulag víkur ekki til hliðar samkomulagi þáverandi innanríkisráðherra og borgarstjóra frá árinu 2013 um að ráðuneytið og Isavia hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar. Mér skilst, og það kom á fundum umhverfis- og samgöngunefndar með borgarstjóra annars vegar og samgönguráðherra, að á næstu fimm árum muni nýjum æfinga- og kennsluflugvelli verða fundinn staður svo að þær miklu snertilendingar sem eiga sér stað á Reykjavíkurflugvelli verði þar ekki lengur. Þannig að það er enn eitt samkomulagið sem eðlilegt er að tiltaka í þessari áætlun allri.

Svo langar mig að nota tækifærið, og það er hluti af fyrirvara mínum, og nefna eitt sem mér finnst skipta máli sem er að aðkoma fulltrúa sveitarfélaganna verði meiri eða mögulega formlegri þegar kemur að forgangsröðun verkefna í samgönguáætlun. Ég segi þetta vegna þess að nefndin hélt fjölmarga fundi með fulltrúum sveitarfélaga, eins og vaninn er, fjölmarga. Það skorti ekkert á tímann sem nefndin gaf sér til að hlusta á fulltrúana. Fulltrúar sveitarfélaga eru annaðhvort fulltrúar einstakra sveitarfélaga eða samtaka sveitarfélaga sem eru einhvern veginn flokkuð niður, komu vel undirbúnir. Það var pínulítið þannig að þau drógu gamla lista upp úr vasanum, eðlilega, ekki síst í ljósi þess hvernig gengið hefur með samgönguáætlun síðustu ára. En það sem ég er sérstaklega að nefna hér er að þó að margar af þeim áherslum sem komu fram hjá sveitarfélögunum hafi skilað sér inn í vinnu nefndarinnar við afgreiðslu á samgönguáætlun, og vissulega eiga mörg þessara sveitarfélaga yfirleitt ágæt samskipti við Vegagerðina, þá hefur það viljað brenna við að hópur sveitarfélaga sem liggja saman kemur á fund til okkar þar sem hann hefur komið sér saman um forgangsröðun innan eigin raða. Það er ekki hvert og eitt sveitarfélag sem kemur með eitthvað heldur eru þau bara öll sammála um að það sé eitt sveitarfélag þarna sem er eiginlega næst í röðinni, þau eru búin að forgangsraða. Þegar um slíka nálgun sveitarfélaga er að ræða finnst mér að það ætti að vera keppikefli okkar hér að ganga að því ef kostur er og færa slíka ákvörðun eiginlega út til sveitarfélaganna ef hægt er. Mér finnst það skipta miklu máli. Ef þau ná að koma sér saman á þennan hátt finnst mér einfaldlega ekki okkar að hafa einhverja aðra skoðun á því nema í sérstökum tilfellum þar sem koma til stærri hagsmunir. Ég brydda upp á þessu hér, mér finnst þetta vera hluti af fyrirvaranum, sem sagt að formgera þessa aðkomu þeirra á einhvern hátt.

Að öðru leyti lýsi ég í fyrirvara mínum yfir ánægju með ágæta samstöðu innan umhverfis- og samgöngunefndar varðandi markmið og forgangsröðun þessarar umfangsmiklu samgönguáætlunar, sem hún er, bæði fyrir árin 2020–2024 og hins vegar 2020–2034 þótt sú sé vissulega eðli málsins vegna óljósari. Fjárhagsleg óvissa vegna heimsfaraldurs Covid-19 flækti forsendurnar verulega en ýtti jafnframt enn frekar undir mikilvægi þess að það yrði haldið vel á spöðunum varðandi verklegar framkvæmdir á næstu árum. Ég tel að nefndinni hafi tekist ágætlega að mæta þessum sérstöku aðstæðum, sérstaklega í þeim hluta sem nær til 2024.

Samgönguáætlun byggir eðlilega á fjármálaáætlun, eins og farið var yfir af framsögumanni málsins. En nú er uppi sú staða að vegna Covid-faraldursins verður fjármálaáætlun, sem átti að koma í vor, ekki lögð fram fyrr en 1. október nk. Þar með hefur ekki verið hægt að leggja fram raunverulegar breytingar á þessari samgönguáætlun, vegna þess að ekki er alveg ljóst hvert fjármagnið er. Það er rætt um 60 milljarða fjárfestingarátak á þessum árum og má ætla, miðað við það sem fram hefur komið, að stór hluti fari í samgönguinnviði. Meiri hluti nefndarinnar, sem stendur að þessu áliti, fer þá leið, eins og framsögumaður málsins, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, fór yfir í ræðu sinni í gær, að forgangsraða verkefnum þessi þrjú ár. Gangi það eftir að þetta viðbótarátak skili sér í fjármálaáætlun haustins mun nefndin leggja fram breytingartillögur. Það eru þá tillögur sem hvíla á þessari umfangsmiklu vinnu nefndarinnar.

Mig langar í lokin að leggja áherslu á að í ljósi núverandi aðstæðna er full ástæða til að hraða framkvæmdum í samgöngum enn frekar og nota tækifærið til að leggja áherslu á nýsköpun og þróun með áherslu á umhverfisvænar samgöngur, vegna þess að það er leiðin fram undan. Það yrði mjög mikilvægur liður í endurreisn efnahagsins. Ég treysti því að umræðan um þessar áherslur og ákvarðanir og aðgerðir í kjölfarið muni eiga sér stað í tengslum við fjármálaáætlun núna í haust.