150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum ágæta yfirferð en langar að spyrja hana út í nokkur atriði. Hún vék aðeins að þeirri togstreitu sem virðist stundum vera á milli þeirra sem telja sig vera að verja hagsmuni dreifðari byggða og þeirra sem tala fyrir hagsmunum Reykjavíkur, eins og þetta séu ósamrýmanlegir hagsmunir. Það birtist í ýmsum ræðum í þessu máli í mikilli áherslu á að virða verði það samkomulag sem gert hafi verið, líkt og eitthvað annað standi til. Þessi tortryggni birtist helst í tengslum við sáttmála sem gerður var á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins varðandi uppbyggingu borgarlínu og ýmissa stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu. En hvernig er það síðan þegar við lesum t.d. breytingartillögur meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem leggur til í fimm ára áætluninni að framlög til yfirborðsviðhalds flugbrauta og flughlaða á Reykjavíkurflugvelli verði 1.113 millj. kr. aukalega? Ef maður setur sig í þessi tortryggnispor virkar það dálítið eins og ekki sé full einlægni á bak við þann yfirlýsta vilja ríkisins að flugvöllurinn fari um leið og annar betri eða jafn góður kostur finnst. Ef setja á rúman milljarð í framkvæmdir á þessum flugvelli sjá menn sjá varla fyrir sér að afskrifa þá fjárfestingu á örfáum árum, þeim fáu árum sem við héldum að væru til stefnu til að flytja flugvöllinn. Hefur þetta eitthvað verið rætt sérstaklega í nefndinni?