150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Blessaður Reykjavíkurflugvöllurinn, það er gott að hann komst almennilega á dagskrá í þessari umræðu. Þetta mál er náttúrlega eilítið erfitt í allri umræðu þegar við tölum um þessa könnun. Nú er gert ráð fyrir að á næstu tveimur árum skýrist hvort Hvassahraun sé vænlegur möguleiki eða ekki. Ef ekki þarf að fara í næstu könnun vegna þess að það eina sem er skjalfest er að flugvöllum á að fara. En eðli málsins vegna þarf flugvöllurinn að vera fúnkerandi þangað til, og það kemur eiginlega ekkert skoðun fólks á flugvellinum við, vonandi ekki, heldur bara mikilvægi innanlandsflugs.

Eins og ég hef skilið það þá er þarna um að ræða nauðsynlega framkvæmd til að flugvöllurinn geti staðið undir nafni á þeim 10–15 árum sem einsýnt er að hann verði á sínum stað. En að sama skapi hefur komið skýrt fram í máli hæstv. samgönguráðherra á fundum umhverfis- og samgöngunefndar að hann ætlar ekki að henda, eins og ég held að orðalagið hafi verið, fjármunum í eitthvað sem ekki á að standa. Þannig að í fyrsta lagi geri ég frekar ráð fyrir því að þetta verði ekki orðið að veruleika áður en endanleg niðurstaða kemur úr þessum tveggja ára rannsóknum og staðan verður tekin aftur þar, þ.e. um framkvæmdina. En það er alveg rétt, þetta er erfitt, sérstaklega af því að hv. þingmaður tiltók hér áherslu á að samkomulag yrði að standa. Flækjustigið í þessari nálgun er að mínu viti að það er svolítið erfitt að gera samkomulag um skoðanir. Það verður alltaf svolítið matskennt hvort einhver næsti kostur er nógu góður til að setja fram. Fylgismenn þess að flugvöllurinn sé nákvæmlega þar sem hann er tala gjarnan um að verið sé að þrengja að og að menn standi ekki við samkomulag. En ég tel það orðið þreytandi hversu mikið menn finna nýjum stöðum og nýjum hugmyndum allt til foráttu í krafti þeirrar vitneskju að á meðan ekki náist samkomulag þá verði flugvöllurinn þar sem hann er. Þannig að þetta er ekki alveg einfalt.