150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er mjög áhugavert. Þetta var ekki rætt sérstaklega og reyndar var þessi tækniþróun ekki rædd sérstaklega í tengslum við gjaldtöku, heldur ekki síður sem frábært tækifæri við skynsamlega uppbyggingu samgöngumannvirkja, sem er auðvitað rétt að einhverju leyti. En þar er svo sem hægt að vera með teljara frekar en að elta hvern bíl uppi þannig að það eru aðrar leiðir færar. En auðvitað er þetta alveg rétt. Hugmyndir Vegagerðarinnar eru að hætta stikkprufum og hætta að eltast við þá sem staðnir eru að brotum, að því að keyra of hratt þar sem myndavélar eru, en að allir bílstjórar séu mældir, ef þeir eru of snemma á ferðinni einhvers staðar miðað við hvenær þeir voru á ferðinni annars staðar á veginum þá keyri þeir of hratt. Auðvitað kallar þetta á mjög þroskaða umræðu og fyrst og fremst að fólk sé upplýst um að þetta sé í gangi og að það séu mjög skýrar reglur um hverjir hafa aðgang að þessu, í hvaða tilfelli og hversu lengi þessi gögn verða geymd.

Það þarf að fara af stað mjög ítarleg umræða um þessi mál hið fyrsta. Hér voru fyrir ekki svo löngu síðan samþykkt ný og hert lög um persónuverndarmál, hið svokallaða MÁP, þar sem leitað var til Persónuverndar sem gefur álit sitt. Það hefur verið frekar í orði en á borði og oftar en ekki er það einhver eftiráhugsun að Persónuvernd sé kölluð til og gjarnan þegar það er orðið allt að því of seint að bregðast við þeim athugasemdum sem hún kemur með. Öll þessi umræða er því mjög gott mál, það er gott að hafa þau í liði með okkur alveg frá upphafi og gera þetta eins vel úr garði og (Forseti hringir.) við mögulega getum, bæði með hliðsjón af því að nýta okkur tækni í fjárfestingum og (Forseti hringir.) til að tryggja að við séum ekki með of mikið inngrip í persónufrelsi fólks.