150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:39]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir síðara andsvarið. Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum en ég veit hvernig það er að vera fastur í umferðinni. Þingmaðurinn nefndi að við í mínum flokki værum bara á móti þessu en að við værum kannski ekki með svörin við því hvar við vildum fá mislæg gatnamót og annað slíkt. Það er ekki alveg svo einfalt. En eitt af því sem stöðvar okkur í því samhengi að við stofnun þessa félags er valdið meira og minna tekið af kjörnum fulltrúum og fært til félagsins sem á að fara að stofna. Þá minnkar vald stjórnmálamanna til að koma að þessum málum og það er það sem ég tek helst út úr þessu. Í samkomulaginu er líka svo margt sem er í þoku og reyk hvað varðar kostnaðarmat, útfærslur og annað slíkt. En við erum alls ekki á móti þeirri hugmynd að koma þessu á einhvern rekspöl heldur er það bara útfærslan og að valdið skuli tekið frá kjörnum fulltrúum sem okkur er ekki að skapi. Nóg er það samt sem mér finnst að við stjórnmálamennirnir séum orðnir valdalitlir og ekki eykst það við stofnun þessa félags.