150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér samgönguáætlanir, bæði til næstu fjögurra ára og til næstu fimmtán ára. Sem þingmaður Suðvesturkjördæmis og þar með þingmaður höfuðborgarsvæðisins ætla ég í ræðu minni að einblína á höfuðborgarsvæðið sem er undir í þeim tveimur samgönguáætlunum sem við ræðum hér enda er áætlað að 75–80% af allri umferð á Íslandi fari fram á höfuðborgarsvæðinu. Eins og skýrt kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur hér áðan hefur höfuðborgarsvæðið því miður verið fjársvelt undanfarin ár þegar kemur að framkvæmdum í samgöngumálum. Nýjustu tölur sýna að aðeins um 17% af nýframkvæmdafé í samgöngum á landinu hafa farið til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og segir í nefndaráliti meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar hafa hlutirnir breyst ansi mikið frá því að samgönguáætlun til fimm ára og til 15 ára voru lagðar fyrir þingið í desember 2019. Forsendur hafa gjörbreyst vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Því eru kjöraðstæður til innviðauppbyggingar í því ástandi sem nú ríkir, þegar við horfumst í augu við sögulega hátt atvinnuleysi og að því miður séum við að sigla inn í eina mestu kreppu sem dunið hefur yfir okkur hér á Íslandi sem og heiminn allan.

Til að bregðast við afleiðingum heimsfaraldursins kynnti ríkisstjórnin hinn 30. mars sl. sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu. Þingsályktun nr. 28/150, þskj. 1203, var samþykkt á Alþingi en meðal áherslusviða fjárfestingarátaksins eru samgöngumannvirki og önnur innviðaverkefni. Í þeirri þingsályktun er mælst til þess að 6.506.000.000 kr. verði ráðstafað til framkvæmda við samgöngumannvirki til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi tillögu að samgönguáætlun og sömuleiðis 1.917.000.000 kr. til annarra innviðaverkefna.

Herra forseti. Þetta eru gríðarlega miklir fjármunir sem við erum að setja til viðbótar og til innspýtingar inn í samgöngukerfið okkar og því ber að vanda til verka. Samgönguáætlunin nær því yfir gríðarlega mikið fjármagn og mig langar aðeins að ræða hér hvernig við getum sameinað umhverfissjónarmið. Með þessu mikla fjármagni og með þessari innspýtingu inn í opinberar framkvæmdir getum við um leið haft mikil áhrif á þróun umhverfismála á næstu árum, sérstaklega er varðar loftgæði og losun gróðurhúsalofttegunda. Í því samhengi má líta til umsagnar Landverndar sem tæpir nokkuð vel á þessum atriðum þegar kemur að umhverfisþættinum í samgöngumálum því að sá þáttur er gríðarlega mikilvægur. Það er áhugavert, eins og fram kemur í umsögn Landverndar, að meta skuli áhrif áætlunar á losun gróðurhúsalofttegunda og markmið ríkisstjórnarinnar er að draga verulega úr losun þeirra frá samgöngum. Svo virðist, alla vega að mati Landverndar o.fl., að ekki hafi verið tekið nógu mikið tillit til þessa í samgönguáætlununum tveimur. Kannski koma hv. þingmenn umhverfis- og samgöngunefndar hér upp til að leiðrétta það hjá mér eða benda á dæmi um það hvernig umhverfissjónarmiðin eru skýr í þeirri umhverfis- og samgönguáætlun sem hér er undir.

Þegar kemur að jafn risastórri áætlanagerð og þeim tveimur samgönguáætlunum sem hér eru undir þá ber okkur skylda til að meta þær stóru áætlanir út frá umhverfismálum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir. Því tek ég líka undir ábendingar í umsögn Landverndar um að í áætluninni þyrftu að koma fram árangursmælikvarðar um markmið og aðgerðir, til að mynda að hlutdeild vistvænna bíla verði 10% við lok tímabilsins, að hlutdeild almenningssamgangna, hjólandi og gangandi, í fjölda ferða innan höfuðborgarsvæðisins nái 30% og að farþegum í innanlandsflugi og almenningssamgöngum á milli byggðarlaga fjölgi. Þá hluti þarf að rýna í út frá því markmiði sem ég minntist á hér áður í umhverfis- og loftslagsmálum. Þess vegna held ég að við þurfum að hafa það sem skýra reglu og skýrari en hér má finna. Ef ætlunin er að auka við almenningssamgöngur verðum við að gera betur en hér kemur fram.

Í umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um þessar tvær samgönguáætlanir koma svipaðar ábendingar fram um að í áætlunina og aðra áætlanagerð á vegum ríkisins vanti markvissa stefnu um hlutdeild vistvænna samgöngumáta og breytingu á ferðavenjum. Þær breytingar eru nauðsynlegar til að stjórnvöld geti staðið við skuldbindingar sínar, m.a. í loftslagsmálum. Það er sömuleiðis áhugavert hér — af því að ég ætla, herra forseti, að halda mig við umhverfisþáttinn um sinn — að sjá umsögn Umhverfisstofnunar þar sem stofnunin kemur með áhugaverðar ábendingar um samhæfingu samgönguáætlunarinnar við lög um stjórn vatnamála og samþættingu áætlana sem lúta að þeim málaflokki. Sömuleiðis kemur ábending frá Umhverfisstofnun um að framkvæmd samgönguáætlunar verði í fullu samræmi við vatnaáætlun og sömuleiðis að í kaflanum um stækkunaráform á Keflavíkurflugvelli verði texti um að flugvöllurinn verði til fyrirmyndar í umhverfisvænum rekstri og komi m.a. hið fyrsta upp lokuðu kerfi til að fanga mengunarefni frá flugvellinum, svo sem afísingarefni. Ég tel þetta góðar ábendingar og þarfar og væri ágætt að heyra hér á eftir í hv. þingmönnum nefndarinnar um þær. Þegar kemur að umhverfismálunum hlýtur stærsta aðgerðin til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda að vera að auka hlutdeild almenningssamgangna. Það þarf varla að rekja það fyrir þingheimi hver sá ávinningur getur orðið, minna slit á slitlagi vega, minni losun gróðurhúsalofttegunda og minni útblástur mengandi efna, minni þrengsli og tafir í umferðinni og lægri slysatíðni. Sömuleiðis er það áhersla á fjölbreyttan ferðamáta fram yfir einkabílinn sem mun, og rannsóknir og þekking okkar sýnir það, hafa í för með sér mikinn lýðheilsuávinning samhliða samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta sjáum við í mjög áhugaverðum viðbrögðum borgarsamfélaga erlendis þar sem meðal helstu og mest áberandi viðbragða stórra milljónaborga við kórónuveirufaraldrinum er að spýta í lófana þegar kemur að breikkun hjólastíga innan borgarsamfélaga og sömuleiðis að gefa í þegar kemur að gerð og eflingu almenningssamgangna.

Ég get varla orða bundist, þar sem ég tala hér sem þingmaður Suðvesturkjördæmis, um nokkuð harðorða umsögn Mosfellsbæjar um samgönguáætlun. Að vísu er hún frá 13. janúar og ég var nú að reyna að fikra mig inn í töflurnar og sjá hvort brugðist hefði verið við þeim ábendingum sem þar koma fram. En þetta er eina sveitarfélagið í nágrenni Reykjavíkur, á höfuðborgarsvæðinu, í svokölluðum Kraga, sem sendir sérstaka umsögn og talar um að ekki sé einu orði minnst á kostnað við skilavegi í samgönguáætlun. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa farið fram á að unnið verði ástandsmat fyrir umrædda vegi og þeim komið í viðunandi ástand áður en þeir verða afhentir til rekstrar til sveitarfélaganna. Sömuleiðis er í umsögn Mosfellsbæjar fjallað um breikkun Vesturlandsvegar sem ég held að hafi verið komið til móts við að einhverju leyti en ég átti erfitt með að sjá í samgönguáætlun hvort komið hafi verið til móts við athugasemdir Mosfellsbæjar um framkvæmdir við Þingvallaveg. Ég held að það þyrfti að gerast og vonandi koma skýringar á því fram í máli hv. þingmanna í umhverfis- og samgöngunefnd.

Við erum að tala hér um almenningssamgöngur. Stærsti þátturinn þar er að sjálfsögðu samgöngusáttmáli sem gerður var á milli ríkis, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins. Sá sáttmáli er tímamótaplagg sem verður til þess að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í langtímaáætlun þar sem allir hlutaðeigandi skuldbinda sig til þess. Þrátt fyrir það kallar Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eftir því að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu verði gerð betri skil í samgönguáætlun með eflingu þeirra út frá loftslagsskuldbindingum ríkisins. Miðað við þá fjármuni sem ráðstafað verður til borgarlínuverkefnisins þyrftum við líka að horfa á það að þeim hefur fjölgað sem nýta sér almenningssamgöngur. Við horfum líka til þess að við erum að ala upp kynslóðir sem telja mun vænlegri kost að nota almenningssamgöngur en að safna fyrir einkabíl. Ég held að sú framtíðarsýn sem við getum séð fyrir okkur hér sé bæði það sem fram kemur í sáttmála ríkisins og sveitarfélaga og borgarinnar, varðandi borgarlínu og eflingu hennar og flýtingu, en við þurfum sömuleiðis að halda vel utan um framkvæmd samgöngusáttmálans. Og það er annað mál sem tengist samgönguáætluninni sem er svokallað ohf.-mál sem við munum ræða hér á eftir varðandi stofnun félags sem mun halda utan um þær framkvæmdir er lúta að samgöngusáttmálanum.

Þegar kemur að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu held ég að sú stefna að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna, úr 4% í 8%, í öllum ferðum innan höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2022 mætti hafa djarfara markmið. Það mætti hugsa sér að hækka þá hlutdeild í ferðum innan höfuðborgarsvæðisins mun meira og aðkoma ríkisins að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu er þar algjörlega nauðsynleg til að bæta þjónustuna. Með tíðari ferðum og lengri aksturstíma hefur farþegum fjölgað töluvert. Þrátt fyrir úrtöluræður sem hér hafa verið fluttar, um að enginn nýti sér almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, hefur samt sem áður orðið fjölgun.

Þegar við tölum um almenningssamgöngur þurfum við líka að horfast í augu við það að gangandi og hjólandi eru stór þáttur þar. Eins og fram kemur í frumvarpinu hefur íbúum fjölgað mest hér í þéttbýli og því ríður á að gera göngur og hjólreiðar að enn fullgildari samgöngumáta. Fjölbreyttari ferðamáti er ekki bara hluti af umhverfis- og loftslagssjónarmiðum heldur líka lýðheilsusjónarmiðum. Þegar við komum út úr þessum heimsfaraldri er betri heilsa og heilsufarssjónarmið okkur ofarlega í huga og það er í takt við að efla og styrkja innviði fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, og það er vel að sjá aukna fjármuni setta í það. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa blessunarlega séð að mestu um að fjármagna stofnkostnað við hjólreiðastíga og alfarið séð um rekstur þeirra en nýverið lagði Vegagerðin um 2 milljarða í uppbyggingu stofnleiðakerfisins. Samkvæmt samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir að áfram verði unnið af krafti við að styrkja og bæta það kerfi. Eins og við vitum eiga tæpir 50 milljarðar að fara í borgarlínu og eflingu almenningssamgangna á tímabilinu en 8,2 milljarðar eiga að renna í fjölgun hjólreiðastíga og göngustíga, göngubrýr og undirgöng. Þær skuldbindingar skipta okkur öll ótrúlega miklu máli.

Þegar ég tala hér um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og nauðsyn þeirra eru almenningssamgöngur um allt land að sjálfsögðu ekki undanskildar. Ég vona að þingmenn landsbyggðarinnar taki flestir undir það með mér að við þurfum að sjálfsögðu að efla almenningssamgöngur meira og hraðar á landsbyggðinni. En ég sakna þess að sjá ekki í samgönguáætlun skýrari heildstæða áætlun yfir landið allt. Ég hef áður minnst á þann þátt þegar kemur að samgönguáætlun. En ég vona að úr því verði bætt. Ég vil árétta þá ósk. Ég held að það væri öllum til bóta og það væri farsælt að við gerðum heildstæða almenningssamgönguáætlun fyrir landið allt þó svo að við þingmenn höfuðborgarsvæðisins höfum líka rætt um að gera þurfi sérstaka almenningssamgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, herra forseti. Það er margt undir í samgönguáætlun til ársins 2034 og mikil áhersla er lögð á flug og flugvelli. Nokkuð er minnst á skosku leiðina svokölluðu í þessari samgönguáætlun. Ég hef verið ein af þeim sem hafa gagnrýnt enn frekari niðurgreiðslu ríkisins á flugsamgöngum og þá helst út frá jafnræðissjónarmiðum en líka út frá umhverfissjónarmiðum. Ég minni á að hin svokallaða skoska leið hefur alls ekki verið án gagnrýni í Skotlandi. Til að mynda er skoska leiðin eingöngu notuð á allra fjarlægustu staði í Skotlandi eins og ákveðna staði á Hjaltlandseyjum en ekki til alþjóðaflugvalla eins og við gerum ráð fyrir.

Ég læt þessu lokið að sinni. Ég held að ég hafi komið á framfæri sjónarmiðum mínum er varða almenningssamgöngurnar og umhverfissjónarmiðin. Ég tel gott að við höfum bætt í með þessum myndarlega hætti viðbótarfjármagni vegna heimsfaraldursins. Ég held að það sé þarft og brýnt, enda er þetta tíminn til að bæta í opinberar framkvæmdir. Vonandi munum við líka framvegis geta tekið allar svona stórar áætlanir út fyrir sviga og metið þær út frá loftslagsáhrifum.