150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún kom inn á mjög mikilvæg sjónarmið sem varða umhverfismál og ýmislegt fleira. Mig langar að byrja á að staldra aðeins við vatnaáætlunina. Ég rifjaði upp að hverju ég hefði komist í vetur þegar við fengum þessa ágæta heimsókn frá Umhverfisstofnun þar sem var farið vel yfir málið. Þar kom raunar fram og má sjá á vefnum að fyrsta vatnaáætlunin verður í rauninni ekki til fyrr en 2022. Þegar hún er orðin til mun skipulag sveitarfélaga þurfa að taka mið af henni og þar með allar samgönguframkvæmdir. Þannig kemur tengingin við samgönguáætlun. Við erum í, hvað á ég að segja, einhverju tímabili núna þar sem er verið að vinna grunnvinnuna sem er ekki enn farin að hafa áhrif.

Spurning mín til hv. þingmanns er: Álítur þingmaðurinn ekki að vatnaáætlunin muni einmitt tryggja það að skipulagið hafi áhrif á samgönguframkvæmdir með þeim hætti sem ég lýsti áðan?

Síðan langaði mig að spyrja út í orð undir lok ræðunnar, kannski misheyrði ég, en mér fannst þingmaðurinn segja að skoska leiðin gæti nýst í ferðum til alþjóðaflugvalla. Samkvæmt mínum skilningi þarf að vera ákveðin fjarlægð í fyrsta lagi frá höfuðborg til að nýta leiðina, og að hún nýtist milli höfuðborgarsvæðis og fjarlægari landshluta. Það birtist einmitt þessa dagana að nú er ansi erfitt að ferðast þar sem flugsamgöngur eru skertar.