150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:25]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir útskýringar hennar á því sem ég kom inn á vegna umsagnar Umhverfisstofnunar um samþættingu vatnaáætlunar og framkvæmd samgönguáætlunar. Eins og hv. þingmaður minntist á mun vatnaáætlun, þegar hún verður komin til framkvæmda og verður að veruleika, sannarlega verða hluti af samgönguáætlun og tekin til greina við vinnu á samgönguáætlun þegar við förum næst í hana. Það er vel og það er gott. Það er einmitt dæmi um hvernig við getum unnið þessa stóru áætlanir saman og samþætt þær.

Varðandi seinna atriðið sem hv. þingmaður inn þá var ég að benda á það að í Skotlandi hefur þessi svokallaða skoska leið, sem mikið hefur verið til umræðu hér í þinginu, náð aðeins til fjarlægustu staðanna og er undanþegin alþjóðaflugvöllum. Það er dreifbýlt í Skotlandi líkt og hér þó að ég viti ekki sjálf nákvæmlega kílómetrafjöldann milli alþjóðaflugvalla í Skotlandi og fjarlægustu byggða á Hjaltlandseyjum. En þar hefur hugsunin verið sú að hjálpa allra dreifbýlustu svæðunum, jaðarsvæðunum, til þess að fá einhvers konar niðurgreiðslu ríkisins á flugsamgöngum. Ég minni líka á að ríkið hér niðurgreiðir nú þegar flugsamgöngur. Ég held að við þyrftum að taka dýpra umræðuna um enn meiri niðurgreiðslu á flugsamgöngum.

Ég skil þau sjónarmið að sjálfsögðu sem fram koma og ég skil sjónarmið landsbyggðarinnar að vilja tryggja greiðar og góðar flugsamgöngur til síns heima. En ég held að við þurfum líka að taka tillit til EES-reglna um ríkisstyrk og sömuleiðis til umhverfissjónarmiða þegar kemur að því.