150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:27]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil einmitt byrja á skosku leiðinni. Ég sé engan mun á útfærslunni hér, þetta er fjarlægustu staðirnir og samgöngur til þeirra svæða sem bjóða heilbrigðisþjónustuna, menntunina, menninguna o.s.frv. Ég veit að í Skotlandi eru íbúarnir á þessum fjarlægu svæðum a.m.k. 70.000, þ.e. lögheimili 70.000 manns falla undir þetta. Við erum ekki með nærri svo marga hér. Ég þekki ekki alveg hlutfallið af þjóðinni.

Það er töluvert komið inn á orkuskipti í flugi í tengslum við samgönguáætlun og flugstefnuna. Ef þau verða þá verður flugið kannski enn þá umhverfisvænni kostur í samanburði við aðra samgöngumáta og samgöngur á landi. Hefði það hugsanlega áhrif á sýn þingmannsins á skosku leiðina?

Síðan langar mig að koma aðeins inn á umsögn Mosfellsbæjar og skilavegina. Það var afgreitt frumvarp rétt fyrir jólin þar sem gefið var svigrúm til að fara í þetta mat. Breikkun Vesturlandsvegar hefur verið boðin út en akkúrat þegar þessi umsögn barst var þarna ákveðið flækjustig sem átti eftir að leysa. Það hefur verið leyst og tryggt með fjárfestingaráætlun 2020 að hægt sé að halda áfram með verkefnið. Þingvallavegarhringtorgin bíða eitthvað og er full meðvitund um það í kerfinu. En varðandi orð hv. þingmanns um almenningssamgönguáætlun höfuðborgarsvæðisins þá átta ég mig ekki alveg á því (Forseti hringir.) af því að nú eru almenningssamgöngur innan þéttbýlis hjá sveitarfélögunum.