150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er einmitt það sem hann sagði, að það væri voða falleg hugsun ef almenningssamgöngur bæru sig. Þær gera það hvergi, held ég, í heiminum. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það sé ekki. Almenningssamgöngur eru eins og aðrar samgöngur kostaðar af samfélaginu. Takmarkið hjá strætó er að farþegagjöldin greiði um 40% af rekstrarkostnaði en það hefur ekki gengið upp. Ég held reyndar að það sé allt of hátt skotið í þeim efnum og hef borið saman tölur við önnur svæði í Evrópu og það er bara býsna hátt.

En þá er komið inn á hinn þáttinn út af því að hv. þingmaður talaði um að það væri kannski skynsamlegt að hafa ókeypis í strætó. Það fer ekki alveg saman ef þær eiga annars vegar að bera sig og hins vegar að vera ókeypis, það segir sig sjálft. En þá er líka áhugavert að skoða greiningar á því hverja fólk telur vera helstu hindrunina í því að það noti almenningssamgöngur og það er ekki verð. Verðið er í fjórða sæti, held ég. Það er fyrst og fremst tíðnin og hversu auðvelt er að komast á milli staða. Þarna er auðvitað bein tenging á milli. Eftir því sem tíðnin er meiri er kostnaðurinn við rekstur kerfisins að sjálfsögðu meiri. Það segir sig sjálft.

Hv. þingmaður talar um ókeypis strætó og ég veit að hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir hafði líka rætt það í annarri ræðu sinni og vísaði þá til Akureyrar. Akureyri er miklu minna svæði en höfuðborgarsvæðið og þar er reyndar frítt í strætó með þeim kostum og ókostum sem því fylgir. Notkunin jókst á einhverjum tímapunkti en þar er þjónustan heldur ekki góð. Um helgar eru örfáar ferðir í boði og það hefur yfirleitt verið reynslan, þegar verið er að bjóða upp á eitthvað ókeypis, því að ég tel að ég og hv. þingmaður getum verið nokkuð sammála um að það er ekkert sem er algerlega frítt í þessum heimi, það er alltaf greitt með einhverjum hætti, að þá er þjónustan yfirleitt síðri.

Ég held að sú leið sem hv. þingmaður leggur til, að hafa ókeypis í strætó og að þannig getum við kennt íbúum að nota strætó, leiði af sér aukinn kostnað og þar af leiðandi minni notkun á strætó. Það er nefnilega tíðnin sem skiptir öllu máli. Þegar hv. þingmaður er að ræða um kostnað við (Forseti hringir.) almenningssamgöngur þá byggist allt á tíðninni. Að sama skapi byggist það líka á tíðni hversu marga við fáum til að nota almenningssamgöngur.