150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með hv. þingmanni að við erum sammála, held ég, um mjög margt í samgöngumálum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Og það er rétt sem hv. þingmaður segir að þetta er náttúrlega búin að vera alveg afleit staða á höfuðborgarsvæðinu eftir að sett var á þetta svokallaða framkvæmdastopp. Það var einfaldlega tekin ákvörðun um að stöðva allar meiri háttar umbætur í samgöngumálum í áratug gegn því að ríkið legði um milljarð króna til Strætó á ári. Alveg furðulegur samningur, einn af mörgum furðulegum samningum sem ríkið hefur gert við borgina í samgöngumálum.

En nú er þessi tími liðinn og það er tímabært að ráðast í framkvæmdir. Ríkið þarf ekki að borga borgarstjórnarmeirihlutanum eitthvert lausnargjald upp á 50, 60, 70 milljarða, í rauninni eiginlega óútfylltan tékka, til að fá að setja peninga í þau verkefni sem hafa beðið allt of lengi. Það eru verkefni sem eru á vegum Vegagerðarinnar að langmestu leyti enda á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu og heyra þar af leiðandi undir ríkið. Og ríkið, verandi loksins laust undan framkvæmdastoppinu sem borgin hafði forgöngu um, er í aðstöðu til þess að ráðast í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu án þess að þurfa að greiða borginni sérstakt lausnargjald fyrir. Ég bara skil ekki hvernig það gat komið til þess að þessi ríkisstjórn ákvæði að setja peninga í það að fá að borga kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík til að mega setja pening í þá uppbyggingu sem ríkið á að sjá um á höfuðborgarsvæðinu.