150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna það að nú skil ég ekki hv. þingmann. Hvaða lausnargjald er ríkið að borga fyrir að fá að greiða þær framkvæmdir sem Vegagerðin ber ábyrgð á? Vegagerðin á að borga framkvæmdir sem hún ber ábyrgð á, væntanlega, þannig að hvert er þá lausnargjaldið þegar samgönguyfirvöld og Vegagerðin leggja hér fram áætlun um hvernig þau ætla að fara í framkvæmdir sem þau bera ábyrgð á? Hvert lausnargjald? Hvergi í þessum gögnum sem ég hef séð erum við að tala um rekstur borgarlínu. Hv. þingmenn Miðflokksins hafa miklar áhyggjur af einhverjum rekstrarforsendum borgarlínu og rekstri. Ég hef bara ekki séð neitt í þessu áliti sem fjallar um rekstur borgarlínu þannig að ég skil ekki hvaða lausnargjald það er að greiða þær framkvæmdir sem Vegagerðin ber ábyrgð á og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru að leggja fjármuni sjálf í þessa innviðauppbyggingu sem Vegagerðin ber ábyrgð á.