150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur sem sagt ljóst fyrir að þingmaðurinn, sem ég þakka andsvarið, vill eingöngu halda áfram opinberum stuðningi við þær leiðir sem eru nú þegar ríkisstyrktar. (SDG: Nei, ég sagði það ekki.) Það er ekki hægt að skilja orð þingmannsins öðruvísi en að hann vilji að flugvellirnir á Egilsstöðum og Akureyri séu undanskildir. Þá langar mig að spyrja út í orð sem bæði voru endurtekin í svarinu áðan og í ræðunni. Hvað er það sem var breytt í meðförum nefndarinnar í samgönguáætluninni sjálfri, bæði nú og við afgreiðslu á síðasta ári? Ég held raunar að sjaldan hafi orðið jafn litlar breytingar á áætluninni, bæði aðgerðaáætlun og langtímaáætlun, og núna. Hins vegar var bætt við verkefnum sem stjórnvöldum var falið að vinna og þess vegna kom áætlunin aftur til afgreiðslu í ár. Hvað er það sem breyttist?