150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:56]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð umræða. Ég ætla rétt að koma inn á skosku leiðina. Það kemur gríðarlega mikið á óvart og vekur töluverða furðu, nú þegar við erum búin að ræða skosku leiðina og margt tengt henni í þrjú, fjögur ár, að hv. þingmaður Norðausturkjördæmis haldi síðan ræðu um skosku leiðina og sé ekki búinn að átta sig á því hvað hún snýst um. Hún snýst um niðurgreiðslu á flugmiðum á ákveðnum fjölda flugleggja fyrir íbúa með lögheimili á tilgreindum svæðum á landsbyggðinni. Það er til að jafna aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að þeirri þjónustu sem er í Reykjavík og hefur verið að byggjast þar upp meira og minna í 20–30 ár.

Ég vil tengt því benda á skýrslu starfshóps sem þetta byggist á, sem vill svo til að ég var formaður í. Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, og Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgönguráðherra, voru með mér í þeim starfshópi. Skýrslan er 70–80 síður um mjög margt af því sem hv. þingmaður hefur verið að ræða hér, hvort sem það er skoska leiðin eða varaflugvallakerfið, uppbygging flugvallakerfisins og allir þeir þættir. Það vekur töluverða furðu, eftir alla umræðuna með sveitarstjórnarfólki og þingmönnum síðustu ár að það sé ekki á hreinu um hvað það snýst.

Síðan getum við rætt það sem ég ræddi hérna fyrr í dag um álögur sem voru settar á flugið, leiðaþjónustu, á eldsneyti og aðra hluti, 2010–2011. Það eru um 400–500 milljónir sem mætti losa um í kostnaði innanlandsflugsins. Það er bara stuttur tími hér í andsvar en ég myndi gjarnan vilja ræða flugvöllinn og samninginn frá því í mars 2013 um söluna á 10 hektara landi í Vatnsmýrinni og hvernig hv. þingmaður, sem tók við sem forsætisráðherra tveimur mánuðum eftir að sá samningur var gerður, tók á þessu sem forsætisráðherra á þeim tíma.