150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að gera athugasemd við það að hv. þingmenn stökkvi hér inn í salinn án þess, að því er virðist, að hafa fylgst með ræðunni sem þeir fara í andsvar við og slengi einhverju fram algerlega í lausu lofti og reyni jafnvel að setja sig á háan hest án þess að vita hvað kom fram í ræðunni. Ég var einmitt að lýsa í ræðu minni mikilvægi þess að skosku leiðinni verði hrint í framkvæmd og að það liggi fyrir með hvaða hætti stjórnvöld ætli að gera það. Þá nota ég einfaldlega tækifærið núna og spyr hv. þingmann, sérfræðing í málinu að eigin sögn: Til hverra mun skoska leiðin ná á Íslandi? Mun hún ná til allra íbúa Akureyrar, mun hún ná til allra íbúa Egilsstaða, mun hún ná til allra íbúa landsbyggðarinnar, mun hún ná til einhverra á höfuðborgarsvæðinu til að stuðla að því að þeir ferðist innan lands og nýti innanlandsflug? Það væri einfaldlega mjög æskilegt að þessar grundvallarstaðreyndir lægju fyrir í samgönguáætlun. Það er það sem ég var að benda á. Sérfræðingurinn getur vonandi útskýrt það allt fyrir okkur. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að útfæra skosku leiðina? Hvað fellur undir skosku leiðina, íbúar hvaða staða og hvaða flugleggir, svo vitnað sé í fyrri andsvaranda? Hvaða flugleggir eru þarna undir?

Hv. þingmaður heyrist mér geta svarað því, verandi sérfræðingur á þessu sviði, þó að ég hefði gjarnan viljað að sérfræðiþekking hans, sé hún svona mikil, hefði nýst betur og komið betur fram í samgönguáætluninni.