150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg makalaust. Þetta hefur verið tilgreint, það hefur mjög víða komið fram um hvað þetta snýst: 285 km fjarlægð frá Reykjavík og hvaða lögheimili það eru, þetta eru sem sagt íbúar sem búa á svæðum eins og í kringum Bíldudalsflugvöll, Ísafjarðarflugvöll, Gjögur, á Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafirði, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum, raunverulega alls staðar þar sem er flogið í innanlandsflugi. Það vekur töluverða furðu að þetta sé umræðan á þessum tímapunkti þegar við erum búin að ræða þetta í þrjú, fjögur ár.

Þetta minnir mig satt að segja svolítið á viðtalið sem var eftir fyrsta fjáraukalagafrumvarpið í lok mars, sem ég frétti af og horfði á í símanum á leiðinni norður í land. Við vorum að samþykkja fjárfestingarplanið sem var með fyrsta fjáraukalagafrumvarpinu. Þar sagði hv. þingmaður að það væri ekkert fjármagn í flughlað á Akureyri, þegar hið gagnstæða hafði komið fram í allri þeirri umræðu og í öllum þeim gögnum. Ég spyr bara: Hvar erum við stödd í umræðu um (Forseti hringir.) flugvallamál og innanlandsflug og annað þegar umræðan er byggð á engu? (Forseti hringir.) Það er ekkert verið að kynna sér málin, enginn áhugi á því að kynna sér hluti (Forseti hringir.) heldur er bara eitthvað sett út í loftið í einhverjum allt öðrum veruleika en (Forseti hringir.) við hin búum í.