150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er einfaldlega að tala út frá samgönguáætluninni. Hún lýsir óvissu. Hún lýsir frösum um hvað menn vilji sjá gerast án útfærslu og jafnvel varðandi grundvallaratriði eins og fjármögnun á grunnþáttum innanlandsflugsins, flugvallanna, eins og ég fór allítarlega yfir með því að lesa einfaldlega upp úr áætluninni sjálfri. Þar birtast setningar eins og að leita þurfi leiða til þess að gera hluti og stefnt sé að skosku leiðinni án þess að hún sé tilgreind nánar o.s.frv.

Ég efast ekkert um að hv. þingmaður vilji innleiða skoska leið eins og hann lýsir og vilji setja sem mest fjármagn í innanlandsflug. Ég veit að hv. þingmaður er stuðningsmaður innanlandsflugsins. En þær yfirlýsingar sem hafa komið frá ríkisstjórninni varðandi innanlandsflug hafa alla jafna ekki verið uppfylltar. Svoleiðis að þegar samgönguáætlun birtist (Forseti hringir.) sem er ekki til þess fallin að skýra hlutina heldur miklu frekar að opna þá og skilja eftir (Forseti hringir.) ósvaraðar spurningar, þá hlýtur maður að hafa áhyggjur af því.