150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:55]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki alveg hver rétt forgangsröðun er í því efni og ég ætla ekki að þykjast hafa öll svörin. En ég vil t.d. benda á varðandi malbikun malarvalla að það þarf ekki að malbika þá nema kannski einu sinni á fimm til tíu ára fresti. Þá eru þeir strax með miklu hærri nothæfisstuðul. Þá hugsa ég um flugvöllinn á Reykhólum sem dæmi um braut sem gera mætti töluvert góðar bætur á með örlitlu bundnu slitlagi. En svo eru kannski aðrir hlutir og á einhverjum af stærri völlunum væri til bóta að bæta við PAPI-ljósum sem dæmi, eða jafnvel brautarljósum eins og eru á Hellu, sem virka mjög vel, eða á Selfossi, þá væri hægt að kveikja á þeim eftir atvikum. Það er reyndar hægt á Selfossi og Hellu. En það eru aðrir staðir þar sem það er ekki hægt.

Ég sé að ég er kominn fram yfir tímann þó svo að forseti hafi gefið mér 2 mínútur. En það er fullt af svona atriðum sem myndu hjálpa mikið við flugöryggi og annað.