150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem ég þekki hv. þingmann að því að vera býsna víðsýnan og vel innréttaðan mann geri ég nú ráð fyrir að við séum býsna sammála um margt sem hann ræddi um. En mig langar samt að tala um forgangsröðun. Það sló mig aðeins þegar hann talaði um göng og skrýtna forgangsröðun. Ég fór inn á það í ræðu minni að auðvitað ráða pólitískar ákvarðanir því að byggðaþróunin verður með þeim hraða hætti sem raun ber vitni hér á Íslandi. Og við erum vissulega sammála um að það er eitt brýnasta verkefni okkar, út frá fólkinu sem býr hér á höfuðborgarsvæðinu og loftslagsmarkmiðum, að ráðast í hraða og góða byggingu á borgarlínu. En er þingmaðurinn ekki sammála mér um að svo eru önnur sjónarmið varðandi samgöngumálin, sem snúa að öryggi, menningu og mannréttindum, sem geta jafnvel réttlætt það að góðir vegir og góðar samgöngur tengi hin smæstu samfélög við okkur hin sem búum meira í hringiðunni?