150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:09]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Eiginlega verð ég bara að skammast mín örlítið. Ég trúi ekki að ég hafi náð að halda ræðu um samgönguáætlun án þess að fjalla um Reykjavíkurflugvöll. En svarið er augljóslega já.(Gripið fram í: Við gerum öll mistök.) Við gerum öll mistök. Það er hárrétt. Staðreyndin er að þetta er mál sem við þurfum raunverulega að finna lausn á. Ég segi bæði við latté-lepjandi vini mína í 101 sem og flugvini mína að við þurfum að hætta að leyfa þessu að vera pólitískt deilumál og finna lausn. Það er algjörlega óþolandi hvernig við höfum einhvern veginn búið til þá pólitísku menningu á Íslandi að vandamál megi bíða í nokkra áratugi á meðan enn þá er hægt að rífast um þau. Þarna er mál sem við þurfum að finna lausn á. Hún þarf að virka fyrir landsbyggðina og hún þarf að virka fyrir höfuðborgina. Hún þarf að virka fyrir alla notendur flugvallarins og alla notendur annarra samgangna. Það er óþolandi að þessu skuli leyft að vera pólitískst kappsmál (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að fundin sé lausn.