150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir sérstaklega áhugaverða og góða umræðu um þetta mál hér í kvöld. Hér er verið að ræða um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar allrar og ánægjulegt í því ljósi að við stígum einmitt skref til baka og förum inn í grundvallarhagsmunina og það sem undir er í breiðara og stærra samhengi. Maður tekur oft eftir því í umræðunni, um einmitt þessa grundvallarhagsmuni þjóðarinnar allrar, hvað hún fer oft hátt upp, hvað það er stutt í það hjá öllum að hólfaskipta umræðunni með þeim hætti að annars vegar sé um að ræða landsbyggð og hins vegar höfuðborg. Þar held ég að við gætum öll gert betur því að þegar allt kemur til alls þá eiga báðar fylkingar eða hópar sömu hagsmuna að gæta í sjálfu sér.

Á samdráttartímum eins og nú blasir það við að hér eru í sjálfu sér kjöraðstæður til innviðauppbyggingar. Við höfum talað fyrir því, og ég tek að því leyti til undir sjónarmiðin sem rakin eru í áliti meiri hlutans hvað það varðar, að þessi tímasetning og ástandið og staðan hljóti að kalla á að við förum af enn meiri krafti en áður hefur verið ráðgert í innviðauppbyggingu. Það finnst mér líka koma heim og saman við þá góðu umræðu sem hér hefur verið í kvöld, að við rífum okkur aðeins upp úr fyrri fótsporum og horfum á myndina aftur. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé kannski meira að segja hægt að orða það með þeim hætti að það sé beinlínis skylda stjórnvalda við aðstæður eins og þessar að fara í innviðauppbyggingu, að fara í arðbærar framkvæmdir með það að leiðarljósi að fjárfesta og skapa störf. Það högg sem við urðum fyrir og það mikla atvinnuleysi sem nú er orðið reyndin hlýtur að kalla á að stjórnvöld noti það svigrúm sem er fyrir hendi í ríkisfjármálum — það svigrúm er sannarlega fyrir hendi — og komi í veg fyrir það með innviðauppbyggingu að fólk festist í atvinnuleysi. Hér er þá algerlega rakin leið til þess.

Eins og fyrir liggur hefur ríkisstjórnin kynnt sérstakt fjárfestingarátak með það að markmiði að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með því að gera betur í þessum málaflokki. Það er vel. Þingsályktun nr. 28/150 var samþykkt á Alþingi og meðal áherslusviða fjárfestingarátaksins eru samgöngumannvirki og önnur innviðaverkefni og það verður að segjast að samgönguframkvæmdir henta sérstaklega vel sem átaksverkefni í stöðu eins og þessari og í innviðauppbyggingu. Samgönguframkvæmdir hafa það með sér að þær eru fjölbreyttar og geta dreifst um landið allt. Það er auðvitað veigamikið atriði, enda ljóst að atvinnuleysið, ef maður horfir á málið með þeim gleraugum, er nú ekki síst þungur veruleiki utan höfuðborgarsvæðisins. Hið þunga högg sem ferðaþjónustan varð fyrir er ekki síst högg fyrir landsbyggðina. Þess vegna þarf í mínum huga að stýra framkvæmdum eftir þörfum en jafnframt eftir því hver staðan er hjá okkur eða hvar afleiðingarnar hafa komið harðast fram í kjölfar Covid-19 en auðvitað hljótum við alltaf fyrst að horfa til þess að fara í framkvæmdir sem eru þjóðhagslega hagkvæmar og ábatasamar.

Um smærri innviðaverkefni er sagt í nefndaráliti, og ég tek undir það, að kosturinn þar sé styttri undirbúningstími samanborið við stærri verkefni. Það hentar vel á tímum sem þessum. Það eru framkvæmdir sem við viljum geta farið í og gripið til, einmitt vegna þess hver staðan er, framkvæmdir eins og landsátak í tengivegum, að fara í bætta styrkvegi, fleiri hjóla- og göngustíga og jafnvel reiðvegi. Það held ég að séu atriði sem þarf að nálgast með þeim gleraugum og þá er ég að vísa til þess aftur hver staðan er í dag og hver staðan verður því miður næstu mánuði og mögulega misseri.

Mig langaði að tala sérstaklega um höfuðborgina og samgöngur þar, hinn svonefnda samgöngusáttmála. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, hafa gert með sér samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til næstu 15 ára. Þar er gert ráð fyrir umtalsverðum, og ég vil leyfa mér að segja tímabærum, framkvæmdum við innviði allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þar erum við að horfa á stofnbrautir og vitaskuld borgarlínuna og aðrar strætisvagnaleiðir, göngu- og hjólastíga en jafnframt væri farið í átak í umferðarstýringu. Það er auðvitað eins og ég segi mikilvægt, umtalsvert og um leið tímabært því það held ég að sé upplifun margra á höfuðborgarsvæðinu, að það hafi, hver svo sem ástæðan fyrir því er, gjarnan orðið niðurstaðan að það hafi allt að því gleymst.

Tilgangur samgöngusáttmálans er m.a. að flýta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og sú nauðsyn blasir við okkur á degi hverjum. Það má ekki bíða með það mikið lengur. Ég er þeirrar skoðunar, eins og meiri hluti nefndarinnar rekur í nefndaráliti, að það sé mikilvægt að koma sem fyrst á fastri umgjörð um fjármögnun verkefna sem þessi sáttmáli nær yfir. Viðreisn fagnar því að samgöngusáttmálinn sem undirritaður var af hálfu ríkisins og sveitarfélaganna sex síðastliðið haust sé orðinn hluti af stefnumótandi langtímaáætlun í samgöngumálum. Við teljum að þar séu sérstaklega jákvæðar áherslurnar á borgarlínuna og það sé þá þetta samvinnuverkefni allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þegar maður horfir á höfuðborgina og hagsmuni hennar, og þá þörf sem þar er fyrir hendi, þá blasir auðvitað við að sú framkvæmd er nauðsynleg til að samgöngukerfi svæðisins geti ráðið við stöðugt þyngri umferð og fjölgun einkabíla. Fókusinn er þá á að aukin áhersla á almenningssamgöngur sé hreinlega forsenda þess um leið að við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum. Það á að ná utan um fjölgun einkabílanna og samgöngukerfið á jafnframt að þjóna hagsmunum okkar hvað árangur og markmið í loftslagsmálum varðar. Í því ljósi finnst mér að jafnvel hefði mátt setja enn meiri þunga í að byggja upp innviði fyrir rafvæðingu bíla með þau markmið að leiðarljósi.

Fulltrúi Viðreisnar í nefndinni er hluti af áliti meiri hlutans en setur ákveðinn fyrirvara þar við og ég tek vitaskuld heils hugar undir þau sjónarmið sem þar eru rakin. Mér finnst t.d. að einnig þurfi að koma fram að þegar við tölum um forgangsröðun verkefna í samgönguáætlun þá hljóti að vera vænlegt til árangurs að auka aðkomu fulltrúa sveitarfélaganna, að með því að fara þá leið að virkja þá betur og auka aðkomu þeirra takist okkur betur að ná fram sjónarmiðum þeirra. Það held ég að sé almennt séð góð og farsæl leið að ákvarðanir sem varða sveitarfélögin sjálf séu eins nálægt þeim og kostur er.

Mér fannst, þegar ég var að rýna nefndarálitið í dag og í kvöld, jákvætt að sjá og upplifa að það virðist sem náðst hafi ágætissamstaða innan umhverfis- og samgöngunefndar um markmið og forgangsröðun fyrir þessi tvö tímabil, 2020–2024 og 2020–2034. Ég held að það sé vitaskuld alltaf fagnaðarefni þegar svo er, en ekki síst í svona málaflokki þar sem um er að ræða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar allrar, í málaflokki þar sem er einmitt svo auðvelt að kljúfa okkur, að mínu mati að þarflausu, nánast í fylkingar. Ég held að það sé jákvætt og málaflokknum í heild sinni til góða að það virðist sem góð vinna hafi leitt til ágætissamstöðu í nefndinni. Eins og segir í álitinu er vegakerfið auðvitað stærsta einstaka eign ríkisins og ríkið ber í því ljósi mikla ábyrgð á að halda því við og standa með því vörð um fyrri fjárfestingar en jafnframt að sýna metnað með frekari uppbyggingu.

Þarna finnst mér við kannski aftur komin inn á slóðir sem tengjast því ástandi sem við glímum við í dag. Þegar við horfum til þess að fara í auknar framkvæmdir sem hafa í för með sér aukna þjónustu og viðhald verður að gera ráð fyrir kostnaði vegna þess og að við bregðumst þá ekki aðeins við þeim vanda, sem hefur vissulega safnast upp undanfarin ár, og við séum vitaskuld vegna þess að vinna að því að bæta vegakerfið og samgöngur eins hratt og við getum. Jafnframt þarf að taka tillit til stöðunnar í dag og hafa sjónarmið hagkvæmni, markmiða í loftslagsmálum, jafnræðis og ekki síst öryggis að leiðarljósi. Það er kannski rauði þráðurinn í því sem ég er að benda á og vil halda til haga í þessari umræðu í kvöld, að undirstrika mikilvægi þess að við þessar sögulegu efnahagslegu aðstæður verði stjórnvöld að sýna kraft og þor í fjárfestingum og þetta svið sé einfaldlega kjörið til þess. Hér er uppi uppsöfnuð þörf og næg verkefni fyrir hendi. Þá er það jafnframt pólitísk afstaða mín að nú eigi að nota það svigrúm sem við búum við í ríkisfjármálum til að dempa höggið sem við verðum fyrir, t.d. með því að fara í auknar fjárfestingar, bæði auka þær og hraða þeim þannig að innviðauppbyggingin verði beinlínis liður í þessari efnahagslegu endurreisn.

Allt í allt kemur fram að uppsöfnuð þörf í samgönguinnviðum okkar sé um 400 milljarðar kr. Samgönguáætlun byggist eðlilega á gildandi fjármálaáætlun en vegna Covid-19 faraldursins verður fjármálaáætlun ekki lögð fram fyrr en 1. október. Með því er vitaskuld komin upp sú staða að ekki er hægt að leggja fram raunverulegar breytingar á þessari samgönguáætlun en auðvitað eru uppi ákveðnar hugmyndir í því sambandi og meiri hlutinn hefur farið þá leið, eins og framsögumaður málsins var búinn að rekja hér fyrr í umræðunni, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, að forgangsraða verkefnum í þrjú ár.

Ég myndi vilja enda á því að vísa í þann fyrirvara sem þingmaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, gerði við álit meiri hlutans. Það er atriði sem ég er sjálf dálítið upptekin af og varðar persónuverndarsjónarmið. Það er eitt þeirra atriða sem hún tiltekur og ég myndi vilja nefna í því sambandi. Þar talar hún um þá hröðu tækniþróun sem orðið hefur í myndgreiningu og möguleika því samfara, að hægt sé að tengja myndgreiningu við ökutækjaskrá og fá þannig fram ítarlegri upplýsingar um dreifingu umferðar, hvaðan hún kemur, hvert hún er fara o.s.frv. Með því verða auðvitað til gagnlegar og miklar upplýsingar. Hér finnst mér skipta máli að hún sé að benda á hið augljósa, að fyrir þessu þurfi að vera vakandi en ég myndi líka vilja segja almennt í umræðu í þessum sal að við þurfum að vera vakandi fyrir því, og mér finnst jákvætt að sjá það og upplifa, að það sé vaxandi skilningur á mikilvægi þessa málaflokks á Alþingi og að við séum kannski í auknum mæli farin að nálgast persónuverndarsjónarmið af þeirri virðingu sem þau eiga skilið, þ.e. að persónuverndarsjónarmið fái að standa inni í málum og séu hugsuð, rædd og afgreidd sem sjálfstæð röksemd en ekki afgangsstærð. Það er alltaf dálítið hætt við því þegar markmið með lagasetningu eru góð, sem við hljótum að gefa okkur að þau séu alla jafna, að við ætlum að ná fram svo ríkulegum almannahagsmunum að við verðum allt að því feimin við að flagga þessum sjónarmiðum af því að þau eiga auðvitað til að höggva aðeins inn í almannahagsmunina. En þá þarf maður að muna að þó að persónuverndin sé oftast nær í tilteknu samhengi, vernd einstaklingsins inni í þessu stóra mengi, þá eru það náttúrlega, þegar allt kemur til alls, almannahagsmunir að ríkið sé tilbúið í samtal um það hvernig við ætlum, þrátt fyrir að ætla að leggja upp í þann góða leiðangur að ná fram einhverjum almannahagsmunum, ekki að gefa afslátt af hagsmunum einstaklingsins í því sambandi; að það geti ekki staðið alltaf og eilíflega — auðvitað er þessi röksemd heldur ekki algild — og verið lokasvar, þegar við erum að flagga sjónarmiðum og áhyggjum af persónuvernd, að markmiðið sé gott. Ef það dugir til í öllum tilvikum þá er persónuverndin nefnilega orðin ansi máttlítil þannig að ég fagna því mjög að sjá umræðu um þetta því að einhver gæti sagt: Hvað kemur persónuvernd samgöngumálum eða umferðarmálum við? Ég tek heils hugar undir að hér þurfi að vanda til verka og að hér sé gott og þétt samstarf við Persónuvernd til að tryggja að markmiðum sé náð fram samhliða því sem ýtrustu skilyrði persónulaga verði virt. Ég læt þetta duga að sinni.