150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:31]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega yfirgripsmikla ræðu. Það sem vakti kannski fyrst athygli mína var það sem hv. þingmaður hóf ræðu sína á, og að vissu leyti lauk henni á, þ.e. tækifærið í þessu ástandi núna til að nýta framkvæmdir í samgöngumálum, og bara í samgöngukerfinu, til að fjölga störfum. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um það. Það er fræg sagan af því þegar Roosevelt, ef ég man rétt, lét grafa skurði og moka ofan í þá aftur til að skapa atvinnu. Við erum svo heppin að þurfa ekki að gera það. Vegna þess að það er svo mikil uppsöfnuð þörf í samgöngukerfinu okkar þurfum við ekki að fara slíkar leiðir heldur getum við skapað atvinnu og um leið bætt ástandið í samgöngukerfinu. Eins og hv. þingmaður sagði þurfum við kraft og þor í framkvæmdaáætluninni okkar.

Vissulega er margt jákvætt í þessari samgönguáætlun en það mætti gera betur. Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Væri í þessu samhengi ekki einmitt tilvalið að nýta þá lægð sem er í ferðaþjónustunni, eins og hv. þingmaður kom inn á, til að byggja upp nákvæmlega þá innviði sem við höfum haft áhyggjur af í ferðamannasprengjunni, að við ættum kannski að einbeita okkur að því að byggja upp innviði sem nýtast ferðaþjónustunni, nýta það að ekki er fullt af ferðamönnum að ferðast um til að styrkja innviðina (Forseti hringir.) þannig að þeir verði tilbúnir þegar ferðamennirnir koma á ný?