150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég held að vísu að við séum mjög á sömu blaðsíðu. Í öllum þeim þyngslum sem eðlilega eru yfir núna – mörg fyrirtæki berjast í bökkum, við erum að sjá atvinnuleysistölur sem við viljum varla horfast í augu við og fram undan gætu verið erfiðari tímar – er líka mikilvægt að horfa til þess hvort og hver tækifærin í stöðunni eru. Svigrúmið í ríkisfjármálunum er sannarlega fyrir hendi og atriðið sem hv. þingmaður nefnir, að áfangastaðir á Íslandi sem voru þétt setnir af ferðamönnum séu það ekki sem stendur. Í því ljósi blasir jafnframt við að fara í það að styrkja og byggja þá innviði sem upp á hefur vantað og ferðaþjónustan hefur sjálf bent á að þurfi við. Ef þetta er rammað inn held ég að það sé líka mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að reyna að horfast í augu við stöðuna, einnig með þeim augum að hér séu einhver tækifæri. Það á við um samgöngur, það á við um innviði í víðara samhengi. Blessunarlega förum við inn í þessa stöðu svo vel nestuð að svigrúmið í ríkisfjármálunum er sannarlega fyrir hendi. Ég myndi því bara ítreka fyrri ummæli mín um að nú þurfi stjórnvöld að hafa kraft og þor til að stíga fast niður fæti.