150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:36]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið og það er greinilegt að við erum einmitt nokkurn veginn á sömu skoðun. En mig langar þó í síðara andsvari að hætta mér inn á slóðir þar sem við erum kannski ekki alveg jafnsammála – eða kannski erum við það. Það verður áhugavert að heyra svar hv. þingmanns.

Hv. þingmaður kom inn á sveitarfélögin í ræðu sinni áðan og það hversu mikilvægt aukið samtal um samgönguframkvæmdir við sveitarfélögin væri. Það er gömul saga og ný að þegar verið er að forgangsraða samgönguverkefnum er það ansi oft þannig að í stað uppbyggjandi samtals um forgangsröðun framkvæmda milli sveitarfélaga og ríkisins — og íbúa landsins ef út í það er farið — er allt of oft alið á klofningi. Það er reynt að draga fram andstæður og reynt að flækja hlutina bara nógu mikið til að hægt sé að fresta hinum og þessum framkvæmdum á þeim forsendum að ekki hafi náðst samkomulag eða samstaða meðal sveitarfélaga um forgangsröðun.

Mér þætti þess vegna áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að við þurfum að breyta þessu samtali. Við þurfum t.d. einmitt að breyta samtalinu milli höfuðborgar og landsbyggðar þannig að við séum meira að forgangsraða framkvæmdum, við séum að taka samtal, landið í heild, með hagsmuni heildarinnar í huga en ekki endilega, eins og allt of oft er, að við endum á að rífast um beygju hér eða einbreiða brú þar eða hjólastíga einhvers staðar annars staðar.