150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég gat mér þess til að hún yrði um persónuvernd. Varðandi markmiðin með lagasetningu, að þau séu oftast góð, þá held ég að ég hafi orðað það með þeim snyrtilega hætti að við hljótum að gefa okkur það.

Varðandi persónuverndarsjónarmiðin: Hv. þingmaður nefnir að vandamálið sé að við erum þegar að rekja ökutækin og lausnin sé að búa ekki til gögnin. Það er auðvitað eitt af vandamálunum við persónuverndarumræðuna að við erum búin að færa mörkin. Við erum ekki lengur að ræða hvort við búum til gögnin. Gögnin eru oftast nær til, þannig að víggirðingin hefur einhvern veginn færst til. Hættan með gögn sem eru búin til með eitthvert gott og verðugt markmið í huga er að oft er kitlandi að nota þau í öðrum tilgangi. Ég held að þegar gögnin eru orðin til verðum við a.m.k. að vera hörð á því að girða fyrir það í hvaða tilgangi megi síðan nota þau. Ég er ekki alveg afdráttarlaus með það og játa að ég þekki ekki nægilega vel dæmið sem hv. þingmaður nefndi. En almennt séð finnst mér þetta oft vera orðið vandamálið þegar við horfum á hvort við ætlum að búa til gögnin og hvernig við ætlum að nýta þau að staðan er einfaldlega sú að fyrri punkturinn á varla lengur við, gögnin eru til, sem er kannski eitthvert vandamál sem maður getur haft skoðun á en er erfitt við að eiga.