150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

kjarasamningar hjúkrunarfræðinga.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ríkið hefur af fullri alvöru átt í viðræðum um nýja kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga. Ríkið hefur mætt öllum helstu kröfum í þessari samningalotu sem hafa að verulegu leyti snúið að því að gera vinnuumhverfið betra, að gera breytingar á vaktavinnufyrirkomulaginu, að fækka vinnustundum í hverri viku, og hefur náðst samkomulag um alla helstu og mikilvægu þættina. Það sem einkum hefur staðið út af og hefur komið í veg fyrir að niðurstaða hafi fengist er launaliðurinn.

Ég verð bara að spyrja: Hvaða málflutning er hv. þingmaður með varðandi kjarasamninga almennt? Er það skoðun hv. þingmanns að alltaf eigi að fallast á allar kröfur, að það eigi bara að bæta í af hálfu ríkisins þegar ekki nást samningar? Skilur hv. þingmaður ekki heildarsamhengi kjarasamninga hins opinbera, loforðið gagnvart lífskjarasamningunum, að menn geta ekki sprengt forsendur allra annarra samninga? Veit hv. þingmaður ekki að við höfum náð niðurstöðu við um 80% viðsemjenda okkar?

Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að það væri mjög alvarlegt mál ef það kæmi til verkfalls, mjög alvarlegt mál. Við erum jú að ræða um afar mikilvægan hlekk í heilbrigðiskeðjunni, hjúkrunarfræðinga. Við höfum lokið samningum við sjúkraliða, fjölmenna kvennastétt innan heilbrigðisgeirans. Samningar tókust þar um að hækka launin, gera betur, laga vinnuumhverfið, en okkur hefur ekki tekist að gera það í tilfelli hjúkrunarfræðinga Ég verð að segja eitt í því sambandi, það hefur komið nokkuð á óvart, vegna þess að við náðum samningum við sjúkraliða, að heyra þann tón hjá hjúkrunarfræðingum að sjúkraliðarnir hafi með því hækkað aðeins of mikið og að bilið sé orðið of lítið. Það kemur mér á óvart (Forseti hringir.) vegna þess að ég hélt við hefðum samstöðu um að lyfta einmitt mest undir með þeim sem hefðu minnst.