150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verðtrygging.

[10:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þann 13. maí sl. sagði hæstv. fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum orðrétt, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að greina frá því hér að ríkisstjórnin skrifaði í fyrra undir sérstaka yfirlýsingu sem tengdist lífskjarasamningunum þar sem fjallað var um verðtryggingu og samsetningu vísitölunnar. Þar var að kröfu launþegahreyfingarinnar gengið út frá því að hingað fyrir þingið kæmi frumvarp þar sem húsnæðisliðurinn færi út úr vísitöluviðmiðinu. Í millitíðinni hefur ýmislegt gerst en á fundi nýlega með þessum sömu aðilum, talsmönnum launþegahreyfingarinnar, kom fram það sjónarmið að fallið væri frá kröfunni um að taka húsnæðisliðinn út vegna þess að menn teldu að það þjónaði ekki, við þær aðstæður sem eru uppi núna, hagsmunum launþega í landinu. Það er staða þess máls í augnablikinu.“

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Voru þetta allir verkalýðsleiðtogar og ef ekki, hverjir voru það?

Hin spurningin er um lífskjarasamningana: Mun hæstv. fjármálaráðherra láta þá falla með því að taka ekki á verðtryggingunni? Er það eitthvað sem stendur til?

Í umræðu um fjáraukalög sagði hæstv. fjármálaráðherra orðrétt, með leyfi forseta:

„Við höfum verið með algerlega einstaka þróun á framlögum úr almannatryggingum á undanförnum árum sem hafa því sem næst tvöfaldast að raunvirði í útgreiðslu á fáum árum.“

Eru inni í þessum tölum stórauknar skerðingar sem eru núna orðnar 160 milljarðar? Ef svo er, og þegar var búið að reikna út þessa tvöföldun á framlögum til almannatrygginga, veit hæstv. ráðherra hvað þeir sem eru á lægstu örorkubótum fá að meðaltali útborgað eftir skatt og hvað eldri borgarar sem eru á lægstu greiðslum frá almannatryggingum fá að meðaltali útborgað eftir skatt?