150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verðtrygging.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Tekjusagan dregur fram kaupmáttarþróunina yfir tíma. Það er hægt að skoða það frá ýmsum hliðum; einstaka hópa, koma með dæmi um sambúðaraðila, einstaklinga og það sem við sjáum er að eldri borgarar sérstaklega hafa notið mikillar kaupmáttaraukningar undanfarin ár, umfram eiginlega alla aðra hópa. Þetta er hægt að sjá. Þetta byggir á raungögnum. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að kannski skila sér ekki allar krónur beint í vasa hvers og eins vegna þess að það er að fjölga í hópnum. Hóparnir eru að verða stærri sem taka þetta til sín en heildarfjárhæðirnar hafa u.þ.b. verið að tvöfaldast á undanförnum árum, sama hvort við horfum til ellilífeyrisþega eða örorkulífeyrisþega.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að við eigum að horfa sérstaklega til þeirra sem minnst hafa þegar við erum að gera umbætur á kerfinu.