150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

fullgilding valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

620. mál
[11:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir þessa áskorun til dómsmálaráðherra og þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að benda á þetta. Ég hvet ráðherra til að bretta upp ermarnar og kalla inn fólk, núna er nóg af hæfu fólki sem vantar vinnu, og ef einhvern tíma var þörf þá er það núna að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að samningur Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur og viðaukinn líka. Við hættum því sem hefur viðgengist, að það sé verið að brjóta reglur gagnvart fötluðu fólki, t.d. í nýbyggingum og í umferðarmálum, það er t.d. verið að þrengja göngugötur og ýmislegt í gangi þar sem verið er að brjóta reglur kerfisbundið. Það væri ekki hægt ef við værum búin að lögfesta bæði samninginn og viðaukann. Við eigum bara að drífa í því. Það eru til peningar til þess að ráða fólk í ýmis verkefni og það eiga að vera til peningar til þess að ráða fólk í að drífa þetta af.