150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

heimilisofbeldi.

883. mál
[11:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Friðhelgi heimilisins er rík og hana ber að virða. Lengi hefur heimilisofbeldi verið til umræðu og margt hefur verið gert til að fást við það, eins viðkvæmt og það er, sérstaklega þegar börn eru annars vegar. En það sem mér kom í hug þegar ég lagði fram þessa fyrirspurn var að á meðan Covid-fárið stóð sem hæst fóru að berast fleiri fréttir af heimilisofbeldi. Má leiða líkur að því að það hafi verið vegna þess ástands sem því fylgdi, þegar fólk var í heimasóttkví og atvinnuleysi var að aukast. Óvissan var mikil. Slíkum aðstæðum fylgir að sjálfsögðu ótti og óöryggi. Þarna spilar líka inn í að fréttir bárust af aukinni neyslu áfengis og annarra vímuefna á meðan þetta ástand varði. Heimilisofbeldi hefur lengi átt sér stað og það hefur þróast og þroskast hvernig fengist er við þann viðkvæma málaflokk, ef svo má að orði komast.

Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra þriggja spurninga í þessu erindi: Hversu margar tilkynningar um heimilisofbeldi hafa borist lögreglu á þessu ári? Hvernig hefur þróun á fjölda tilkynninga verið síðustu ár? Og í þriðja lagi: Hyggst ráðherra fara í átak gegn heimilisofbeldi og ef svo er, með hvaða hætti?

Það er mjög brýnt að við hugsum um þennan málaflokk og vöndum okkur. Það er dapurlegt til þess að vita að börn eru oftast til staðar þegar ofbeldið á sér stað og þau vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Oft er það nú þannig að þegar börn sem hafa lent í slíkum aðstæðum, verða fullorðin bera þau þess merki og lenda síðan sjálf í vandræðum í lífinu vegna þess að þetta hefur komið fyrir þau á unga aldri.