150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[11:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. dómsmálaráðherra um stétt lögreglumanna. Lögreglumenn eru hluti af framlínusveitum okkar í veirufaraldrinum. Ef einhver hefur velkst í vafa um að svo væri þá vorum við svo sannarlega minnt á það fyrir helgi þegar fjöldi lögreglumanna var settur í sóttkví eftir afskipti af smituðum brotamönnum sem komu til landsins og virðast hafa hunsað öll fyrirmæli um sóttkví. Komið hefur í ljós að a.m.k. einn lögreglumannanna hefur smitast vegna þessara afskipta. Lögreglumennirnir eru enn í sóttkví.

Frú forseti. Við upplifum nýja tíma í mörgum skilningi hvað varðar afbrot og áskoranir sem löggæslan þarf að takast á við. Það er ekki einungis vegna íbúafjölgunar eða þess að Ísland er orðið ferðaþjónustuland á síðustu örfáu árum, með þeirri þróun að hingað koma ekki bara nokkrir hópar sérviturra ferðamanna til að skoða áhugaverðar jarðmyndanir, heldur hefur Ísland verið uppgötvað síðustu ár sem ósnortið og spennandi land og hingað koma milljónir ferðamanna árlega.

Enn frekar hafa áskoranir lögreglustéttarinnar aukist vegna þess að afbrot eru í stöðugri þróun, ef svo má að orði komast, og brotamenn hafa stöðugt fært sig yfir á ný svið með tilkomu netsins og ekki síður vegna þess að skipulögðum glæpahópum hefur vaxið ásmegin undanfarin ár og eru samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra nú þegar búnir að koma auga á tækifæri, ef svo má að orði komast, hér á landi.

Á sama tíma og álag, með þeim hætti sem ég hef lýst, hefur aukist á lögreglu hefur lögreglumönnum ekkert fjölgað heldur frekar fækkað árum og áratugum saman meðan athuganir og skýrslur hafa sýnt að mikil og viðvarandi þörf er á mikilli fjölgun í lögreglunni. Margoft hefur verið kallað eftir því en lítið gerist. Lögreglumenn telja sig hafa dregist mjög aftur úr sambærilegum stéttum og standa í stappi við ríkið um nýja samninga en hvorki gengur né rekur í þeim efnum. Lögreglumenn hafa verið samningslausir í vel á annað ár. Forsvarsmenn lögreglumanna minnast æ oftar á það á opinberum vettvangi að nauðsynlegt sé fyrir stéttina að endurheimta verkfallsréttinn til að ná fram leiðréttingu á kjörum sínum. Ég lagði í haust í annað sinn fram frumvarp þess efnis að lögreglumenn endurheimti verkfallsrétt sinn sem þeir afsöluðu sér 1986. Því er ég með þessar spurningar til hæstv. dómsmálaráðherra: Hver er afstaða ráðherra til verkfallsréttar lögreglumanna? Hvaða rök, ef þau eru til, telur ráðherra að séu fyrir því að lögreglumenn búi ekki við verkfallsrétt eins og gerist um flestar aðrar starfsstéttir?