150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[12:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og tek undir með honum að fjölbreytileiki starfsins hefur líklega sjaldan verið meiri og nýjar áskoranir eru fjölmargar. En ég ætla strax að leiðrétta hv. þingmann varðandi fjölgun lögreglumanna því að út af þessum nýju áskorunum sinna margir aðrir sérfræðingar störfum sem lögreglumenn sinntu áður. Það má nefna að hjá lögregluembættinu á höfuðborgarsvæðinu starfa t.d. 100 einstaklingar við ýmis verkefni sem áður var aðeins sinnt af lögreglumönnum, t.d. vegna skipulagðrar brotastarfsemi, netglæpa, peningaþvættis, kynferðisbrotamála og annars. Það eru ekki lögreglumenn og því ekki inni í þessum tölum. Það er eins og að bera saman epli og appelsínur.

Varðandi verkfallsréttinn, sem hv. þingmaður gerir að umræðuefni, stendur í 31. gr. lögreglulaga að lögreglumenn megi hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðun. Eins og hv. þingmaður kom inn á var þessu bætt inn í lögin árið 1986 en fram að því höfðu lögreglumenn verkfallsrétt með takmörkunum. Við heildarendurskoðun árið 1996 stóð ákvæðið síðan óbreytt. Var þá talið að augljós rök lægju að baki þar sem starfsemi lögreglu væri ein meginforsenda þess að haldið væri uppi skipulögðu og lögbundnu þjóðfélagi og verkfallsréttur lögreglumanna talinn ósamrýmanlegur hlutverki lögreglu.

Þegar rætt er um verkfallsrétt lögreglumanna verður að hafa í huga hve þýðingarmiklu starfi þeir gegna, en samkvæmt lögreglulögum er þeim ætlað að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi. Einnig er þeim ætlað að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins, vinna að uppljóstrun brota, stöðva ólögmæta háttsemi o.s.frv. Það gefur augaleið um leið og menn horfa til þessara þátta að árið 1986 hafa verið talin gild rök til að afnema verkfallsrétt í samningum ríkisins við lögreglumenn. Sérstaklega var horft til mikilvægis starfa þeirra fyrir lög og rétt og almannaöryggi í landinu. Í staðinn fyrir afnám verkfallsréttar var svo samið um að lögreglumenn fengju kauptryggingu. Raunar er staðreyndin sú að fyrir árið 1986 var verkfallsréttur lögreglumanna mjög takmarkaður og verður að taka inn í umræðuna að það helgaðist vitaskuld af eðli starfa þeirra. Í sem stystu máli, án þess að rekja það sérstaklega, er staðan því sú að fyrir formlegt afnám verkfallsréttar var hann fremur í orði en á borði og í staðinn skyldu lögreglumenn fá tryggingu fyrir því að launaþróun þeirra yrði í samræmi við hækkanir sem aðrir ríkisstarfsmenn fengju í samningum sínum.

Í samningaviðræðunum sem nú standa yfir snýst deilan einmitt um þetta atriði. Samninganefnd ríkisins telur sig hafa boðið sömu launahækkanir og aðrir ríkisstarfsmenn hafa fengið og að einnig sé horft til heildarhagsmuna lífskjarasamningsins. Ég hef fylgst með viðræðunum og hvatt til samninga og vonandi förum við að ná til lands í deilunni sem er undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Það hefur mikið mætt á lögreglumönnum líkt og bersýnilega sást um síðustu helgi þegar lögreglumaður smitaðist af Covid-19 við skyldustörf. Ég hef skoðað þær ályktanir sem Landssamband lögreglumanna hefur komið með varðandi verkfallsréttinn og þeir telja sig hafa dregist aftur úr viðmiðunarstéttum. Þetta þarf auðvitað að skoða við samningaborðið. En það er ljóst að lögreglumenn sinna afar mikilvægum störfum tengdum öryggi lands og þjóðar og sérstaðan varðandi verkfallið er eðli málsins samkvæmt vegna neyðar- og öryggisþjónustu. Einnig er ákvæði í lögum um Landhelgisgæsluna að þeir starfsmenn sem sinna löggæslustörfum mega hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun. En í gildandi lögum er aðeins talað um lögreglumenn sem fara þá með lögregluvald og að meginhlutverk lögreglunnar sé að halda uppi lögum og reglum, þ.e. skipulögðu og lögbundnu þjóðfélagi. Færu lögreglumenn í verkfall í trássi við það ákvæði yrði það að teljast ósamrýmanlegt hlutverki lögreglu.

Ég hvet eindregið til samninga og er í góðum samskiptum við Landssamband lögreglumanna sem og fleiri lögreglumenn og lögreglustjóra. Ég ræddi sérstaklega samningana í lögregluráði fyrr í vikunni við alla lögreglustjóra landsins. Það er alveg ljóst, og ég tek undir það, að stéttin hefur verið framlínustétt í þessu sérstaka Covid-ástandi. Mikið hefur mætt á henni og mikilvægt er að samningar náist.