150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[12:07]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er rétt, sem hér hefur ítrekað komið fram, að lögreglan sinnir mikilvægum störfum og sérstaklega þá í neyðar- og öryggisþjónustu. Þess má líka geta að þess vegna eru lögreglumenn líka skráðir sem embættismenn samkvæmt lögum og annað slíkt. Mikilvægi starfa lögreglunnar er augljóst og því er kannski skiljanlegt að þeir hafi ekki verkfallsrétt. En það verður þá að sjást annars staðar, eins og í launaumslaginu, hver ábyrgðin er og hvert mikilvægið er og annað slíkt. Það er vandamálið hér. Það er stóra vandamálið. Í staðinn fyrir verkfallsréttinn fengu þeir önnur ákvæði inn, það hafa verið tvö ákvæði, en einhvern veginn hefur samninganefnd ríkisins alltaf tekist að eyðileggja þau ákvæði. Sú launatrygging sem átti að koma í staðinn, þegar verkfallsrétturinn fór út, hefur allan tímann verið virt að vettugi af stjórnvöldum. Það eru til mörg dæmi um það og það verður að láta af því svo að þetta geti gengið svona áfram.