150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[12:08]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu og mikilvægu umræðu. Eins og komið hefur fram hafa lögreglumenn verið samningslausir í 15 mánuði en staðan er í raun miklu alvarlegri þar sem ekki hefur verið samið almennilega við lögreglumenn frá árinu 2005, ef ég man rétt. Það hafa bara verið framlengingar og viðbætur frá þeim tíma. Kjarasamningurinn hefur ekki verið tekinn upp í lengri tíma, sem er alvarlegt. Skortur á verkfallsréttinum er sannarlega staðfesting á mikilvægi þessarar stéttar og það á að koma fram við hana á þann hátt. Það þarf að viðurkenna mikilvægi hennar í launum og ekki er síður mikilvægt að hækka grunnlaunin og miða þar við sambærilegar stéttir eins og sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfræðinga o.fl.