150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[12:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Stór og fjölmenn og mikilvæg stétt opinberra starfsmanna er með kjaramál sín í ólestri og hefur verið svo lengi. Það á við um lögreglumenn og lögreglukonur — ég vil nota orðið lögregluþjónar sem mér finnst fallegra orð. Lögregluþjónar misstu verkfallsrétt sinn árið 1986, í samningaviðræðum við hið opinbera, og gerðu samkomulag um að kjör þeirra yrðu tryggð með viðmiðunum við ákveðnar stéttir sem hafa verkfallsrétt, fjórar aðrar stéttir. Lái lögregluþjónum hver sem vill að treysta því að hið opinbera stæði við gert samkomulag, þeir gerðu heiðursmannasamkomulag.

Frú forseti. Lögregluþjónar eru sú stétt í landinu sem nýtur hvað mests trausts. Þeir treystu því að hið opinbera væri traustsins vert en það hefur ekki reynst vera. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: (Forseti hringir.) Mun hæstv. dómsmálaráðherra beita sér fyrir því að kjör þeirra verði rétt og kjaraumhverfi þeirra verði komið í skorður? (Forseti hringir.) Þeir hafa dregist aftur úr í kjörum sínum. (Forseti hringir.) Verða þau leiðrétt en ekki bara komið í (Forseti hringir.) farveg?

(Forseti (BHar): Forseti minnir á tímamörkin en það er ein mínúta fyrir aðra þingmenn sem taka þátt í þessum fyrirspurnatíma.)