150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[12:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Lögreglumenn leggja líf sitt og heilsu í hættu fyrir okkur hin á hverjum degi. Það gerðu þeir meðan setið var um þetta hús fyrir nokkrum árum. Það gera þeir nú með því að umgangast fólk sem þeir vita ekki hvort er smitað af veirunni sem gengur enn hér á Íslandi. Þeir halda ótrauðir áfram og leggja líf sitt og heilsu í hættu fyrir okkur hin. Við þær aðstæður er forkastanlegt að viðmót það sem hefur mætt þeim, í samningaviðræðum við ríkið um laun og kjör, hefur nánast verið fjandsamlegt. Þeim er boðið upp á sama samninginn aftur og aftur sem þeir hafa ítrekað hafnað. Ég verð að hvetja hæstv. ráðherra til að stíga af myndugleik inn í þessa deilu og sjá til þess að hún verði leyst. Lögreglumenn eiga mjög erfitt verkefni fyrir höndum næstu misseri út af því hvernig ástandið er í landinu og það er óþolandi að þeir standi á sama tíma í kjaradeilum við ríkið hafandi (Forseti hringir.) ekki verkfallsrétt.