150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[12:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er óumdeilt, eftir því sem ég fæ best séð, að lögreglumenn hafa setið eftir þegar kemur að þeirri launaþróun sem þeir sömdu um árið 1986 gegn því að leggja niður verkfallsréttinn. Sú staðreynd að það þykir algerlega ótækt að setja þann verkfallsrétt aftur á laggirnar er sú sama staðreynd og ætti að sýna yfirvöldum, að þessi störf þurfa að vera vel launuð. Það snýst ekki bara um veski lögreglumanna. Það snýst líka um það hvaða hlutverki lögreglan þjónar í hverju samfélagi. Þetta er stofnun, eða stofnanir, sem getur beitt líkamlegu valdi. Það er mjög mikilvægt að fólk sem sinnir slíku starfi upplifi að virðing sé borin fyrir starfi þess. Það er mjög mikilvægt að þetta sé eftirsóknarvert starf. Það snýr ekki bara að réttindum lögreglumanna heldur einnig lögvörðum réttindum borgaranna. Það er á ábyrgð yfirvalda að leiðrétta það sem út af hefur borið og mér finnst það sorglegt að (Forseti hringir.) þrátt fyrir ítrekaðar umræður hér sjáist engin merki um vilja (Forseti hringir.) ráðherra Sjálfstæðisflokksins til þess að standa við gefin loforð frá 1986.