150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[12:16]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Mér finnst umhugsunarvert að við séum hér að ræða um verkfallsrétt lögreglu. Hægt er að rökstyðja það í báðar áttir hvort þessi stétt eigi yfirleitt að hafa þann rétt. En svarið við því hvers vegna lögreglan er ekki með verkfallsrétt er einfaldlega það að samfélagið þolir það ekki einn einasta dag að þessi stétt sé ekki að störfum. Það er mikilvægi starfans. Mér finnst það vera ákveðin og sterk birtingarmynd á kjaradeilunni þegar við erum komin á þann stað að vera farin að ræða um verkfallsréttinn. Við ættum ekki að þurfa að vera að ræða það ef einhver gangur væri í viðræðum og ef virðingin speglaðist í viðræðunum og ef kjör lögreglu væru í samræmi við þýðingu hennar fyrir samfélagið. Við þekkjum tungutakið um framlínuna, við þekkjum tungutakið um ábyrgðina og allt þetta. Það er óþægilegt að við séum komin á þann stað að við séum að ræða um verkfallsréttinn, sem er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd þess hversu illa hefur verið búið (Forseti hringir.) að lögreglunni og hennar kjörum. (Gripið fram í: Heyr.)