150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verkfallsréttur lögreglumanna.

885. mál
[12:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum þeim þingmönnum sem tóku hér til máls. Það er greinilega mikill samhugur og einhugur meðal þingmanna um að standa með lögregluþjónum, eins og einn hv. þingmaður orðaði það svo skemmtilega áðan. Forsvarsmenn lögreglumanna segja að samningar strandi á því að ríkið þverskallist við að ljúka við að semja um ákveðnar álagsgreiðslur sem settar hafa verið inn í fyrri kjarasamninga og að efndir hafi ekki verið eins og kveðið var á um í þeim.

Frú forseti. Í haust lagði ég í annað sinn fram frumvarp þess efnis að lögreglumenn endurheimti verkfallsrétt sinn sem þeir afsöluðu sér 1986 gegn því að laun þeirra yrðu ákveðin samkvæmt launum ákveðinna viðmiðunarstétta. Lögreglumenn telja að allar forsendur fyrir þessu hafi verið brotnar skömmu eftir 1986.

Hæstv. ráðherra fór hér yfir mikilvægi starfa lögreglu og tek ég auðvitað undir það eins og ég gerði í fyrri ræðu minni. En hún svaraði ekki spurningunni um hvort hún væri hlynnt því að lögreglumenn hlytu verkfallsrétt að nýju. Það er enginn að tala um að allir lögreglumenn leggi niður störf þann dag sem boðað yrði til verkfalls. Það er ekki svo. Auðvitað yrði fyllsta öryggis gætt. En þetta vopn, verkfallsrétturinn, er nauðsynlegt. Það hefur sýnt sig síðustu 35 árin að þetta vopn er nauðsynlegt fyrir þessa stétt til að ná fram leiðréttingu á kjörum sínum. Ég er líka ánægður með, þegar ég minnist á frumvarpið sem var lagt fram fyrir sjö til átta árum, að þá voru einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, sem nú eru í stjórn, hlynntir því. Því er eðlilegt að ég spyrji hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins hver afstaða hans sé nú til verkfallsréttar lögreglumanna.

Það er athyglisvert að svona sé komið fyrir stétt lögreglumanna (Forseti hringir.) þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórn, flokkur sem kennir sig við reglu, öryggi og réttarríki.