150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

uppbygging á friðlýstum svæðum.

788. mál
[12:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að eiga samtal við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um friðlýst svæði. Fyrr í vetur fékk ég svör við nokkrum spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra um svipað efni, 373. mál. Ég spurði hver væru friðlýst svæði á landinu, hverjar væru fyrirætlanir um friðlýsingu og í hvaða tilfellum friðlýsingu hefði verið aflétt. Það vakti athygli mína, svo að það sé nefnt, að síðustu spurningunni var svarað þannig að mjög fátítt væri að friðlýsingu væri nokkurn tímann aflétt. Það kom einnig fram í svari ráðherra að fjölmargar fyrirætlanir eru á borði ráðherra um að friðlýsa svæði og ýmislegt annað og ég þakka fyrir svör sem bárust við fyrirspurninni og voru næsta ítarleg.

Ég ætla örlítið að fara inn á svör ráðherra um hvaða svæði væru í ferli og á hvaða grunni fyrirhugað væri að friðlýsa þau áður en ég kem að spurningunum sjálfum sem ég lagði fram fyrir nokkuð löngu. Í grunninum er t.d. vísað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að unnið skuli að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og sérstök áhersla skuli lögð á friðlýsingarkosti í verndarflokki rammaáætlunar auk verndarsvæða í samræmi við náttúruverndaráætlun. Ég vildi að ég hefði tíma til að fara yfir þjóðgarðinn og friðlýsingar samkvæmt verndarflokki rammaáætlunar. Ég byrja á hálendisþjóðgarðinum.

Unnið er að friðlýsingu miðhálendisins sem þjóðgarðs en gert er ráð fyrir að hann taki að lágmarki til þjóðlendna innan miðhálendislínu. Forsendur friðlýsingar þjóðgarðsins er að finna í skýrslu nefndar sem vann að undirbúningi hans. Hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir að leggja fram frumvarp í haust um stofnun hálendisþjóðgarðs sem veiti heimild til friðlýsingar hans. En eins og hæstv. ráðherra er kunnugt um reyndist vera talsverð andspyrna gegn þessum hugmyndum, m.a. hjá sveitarstjórnum og íbúum á þessum svæðum úti á landi. Þar kom m.a. fram að andstæðingar töldu reynsluna af Vatnajökulsþjóðgarði ekki nægilega langa og ekki svo góða að það réttlæti að færa út kvíarnar svo kröftuglega eins og fyrirætlanir ráðherra eru varðandi miðhálendisþjóðgarð.

Ég ætla ekki að lesa upp allar spurningar mínar til hæstv. ráðherra en ítreka þó sérstaklega spurninguna um hvort það gæti hentað og hvort ráðuneytið hafi skoðað það að afnema friðlýsingu í einhverjum tilvikum, hvort landeigendum sé betur treystandi í einhverjum tilvikum til að byggja upp aðstöðu og vernda viðkvæma náttúru á hinum friðlýstu svæðum. Og ef svo er, hvar ráðherra telji það helst koma til greina. Frú forseti. Ég veit dæmi þess að íbúar og landeigendur telja svo vera.