150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

uppbygging á friðlýstum svæðum.

788. mál
[12:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi fyrstu spurninguna þá fer í raun alveg eftir eðli hins friðlýsta svæðis og hvaða friðlýsingarflokk um er að ræða hversu mikil uppbygging þarf í reynd að eiga sér stað á svæðinu. Í náttúruverndarlögum er kveðið á um einstaka flokka friðlýstra svæða. Sem dæmi eru náttúruvætti þau svæði sem ástæða þykir til að varðveita sökum fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Sem dæmi um slíkt svæði er Geysissvæðið í Haukadal sem friðlýst var í gær sem náttúruvætti. Það er t.d. einn okkar fjölsóttasti ferðamannastaður og því brýnt, svo að ekki sé gengið á náttúruverðmæti svæðisins, að tryggja að á svæðinu séu innviðir sem geti tekið á móti þeim fjölda ferðamanna sem sækir hann heim allan ársins hring. Það þarf að huga að öryggismálum, aðgengi fyrir alla og upplifun gestanna. Þetta á ekki alltaf við um öll náttúruvætti þannig að það er líka mismunandi innan flokkanna.

Annað dæmi um friðlýsingarflokk eru þjóðgarðar, alla jafna stór landsvæði sem eru lítt snortin og hafa að geyma sérstakt eða dæmigert lífríki, jarðminjar og/eða landslag. Í náttúruverndarlögunum segir að tryggja skuli aðgang almennings að þjóðgörðum til útivistar svo að fólki gefist tækifæri til að kynnast náttúru og sögu svæðisins. Til að uppfylla megi þau skilyrði er oft nauðsynlegt að ráðast í uppbyggingu en hún verður alltaf að taka mið af markmiðum friðlýsingarinnar og vera í sátt við náttúruna.

Óbyggð víðerni eru enn annar flokkur friðlýsingar. Þar er um að ræða stór landsvæði þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum. Friðlýsing slíks svæðis skal miða að því að varðveita einkenni þess, t.d. að viðhalda fjölbreyttu og óvenjulegu landslagi, víðsýni eða að vernda heildstæð, stór vistkerfi og tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja. Mikil uppbygging á svæðum í þessum flokki er því t.d. ekki líkleg. Það er því mjög mismunandi hvar uppbygging á við og hvernig beri að standa að uppbyggingunni.

Sný ég mér þá að annarri spurningu hv. þingmanns þar sem hann spyr um viðmið stjórnvalda um samspil náttúru og mannvirkja þegar aðstaða er byggð á friðlýstum svæðum. Stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029, sem Alþingi samþykkti fyrir tveimur árum, er það stjórntæki sem við styðjumst við í þessum efnum. Í þessari áætlun eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag, hönnun og ferðamannaleiðir. Við mat á þörf á innviðum á tilteknum stað skal horft til samspils vörslu, reglna og efnislegra innviða. Í þarfagreiningu verði tekið tillit til kostnaðar við uppbyggingu, reksturs og viðhalds efnislegra innviða til lengri tíma. Ekki beri að líta á efnislega innviði sem sjálfgefið fyrsta viðbragð við auknu álagi á náttúru vegna fjölgunar ferðamanna. Nauðsynleg mannvirki á friðlýstum svæðum eiga að vera vel hönnuð. Þau eiga að falla vel að landslagi, falla vel að viðkomandi minjum, gildi staðarins og staðaranda og styðja við upplifun gesta. Góð ending og lítil viðhaldsþörf skal einkenna slík mannvirki og heildarsvipmót lands skal varið eftir fremsta megni.

Í þriðja lagi spyr þingmaðurinn um afnám friðlýsingar og hvort landeigendum sé betur treystandi til að byggja upp aðstöðu og vernda hin friðlýstu svæði. Friðlýsing svæða byggir á verndargildi þeirra, þ.e. náttúruminjanna sjálfra. Í náttúruverndarlögunum segir að afnám friðlýsingar geti átt sér stað ef verndargildi minjanna eða svæðisins hefur rýrnað eða ef mjög brýnir samfélagshagsmunir krefjast þess. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna á eftir atvikum að endurmeta verndargildi þeirra minja sem standa á gildandi náttúruminjaskrá. Það mat stendur yfir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Það mat tekur líka til þess hvar hentar best að flokka viðkomandi svæði í friðlýsingarflokka og fleiri atriði sem þar er litið til. Um það hvort landeigendum sé betur treystandi til að byggja upp aðstöðu og vernda hin friðlýstu svæði vil ég segja að víða, sérstaklega í jaðri friðlýstra svæða, og þar er hægt að nefna Geysissvæðið sem dæmi, hafa landeigendur staðið að uppbyggingu aðstöðu af miklum sóma. Slík uppbygging þjónar verndarmarkmiðum svæðisins þar sem ekki hentar endilega að reisa salerni eða gestastofu inni á sjálfu hverasvæðinu, svo að dæmi sé tekið. En víðast á friðlýstum svæðum er hið opinbera landeigandinn og landsáætlun um uppbyggingu innviða, sem ég fór hér yfir áðan, markaði tímamót í getu ríkisins sem landeiganda til að standa að uppbyggingu af myndarbrag. Þar höfum við gert vel og getum auðvitað gert enn betur og ætlum að gera það.